Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á vorfundi Jarðhitafélags Íslands 2010

Svandís Svavarsdóttir ávarpaði gesti við upphaf vorfundar Jarðhitafélags Íslands sem haldinn var 14. apríl 2010.

Góðir félagsmenn Jarðhitafélagsins og aðrir gestir,

Það er mér sönn ánægja að ávarpa þetta vorþing 10 ára afmæli Jarðhitafélagsins.

Jarðfræðin segir okkur að á jörðinni séu um 40 eða svo “heitir reitir”, þar sem er uppstreymi hita og kviku úr iðrum jarðar. Öflugasti reiturinn er sagður vera hér undir Íslandi og má telja merkilegt að jarðfræðilega heitasta land hnattarins heiti kuldalegasta nafninu. Við kynnum landið okkar sem land elds og ísa og það er einfaldlega raunsönn lýsing á aðstæðum. Náttúra Íslands er sérstök og lifandi og býður upp á einstakt sjónarspil, eins og við höfum orðið vitni að á Fimmvörðuhálsi síðustu vikur.

Hitinn í iðrum landsins er ein okkar mesta auðlind og við höfum nýtt hana af fyrirhyggju og skynsemi, þótt eflaust megi finna dæmi um það sem betur hefði mátt fara. Ég hef haldið því fram að nýting okkar Íslendinga á jarðhitaauðlindinni sé prýðilegt dæmi um sjálfbæra þróun í framkvæmd. Reynt hefur verið að gæta þess að taka ekki meira en svæði geta gefið af sér til lengri tíma. Orkan hefur verið nýtt á fjölbreyttan hátt í þágu almennings til húshitunar og í sundlaugum og til ylræktar og annarrar atvinnustarfsemi. Við höfum byggt upp góða vísindalega þekkingu á auðlindinni og nýtingu hennar og deilum henni með öðrum þjóðum í Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, sem er eitt farsælasta og best heppnaða verkefni á sviði þróunarsamvinnu sem við eigum. Notkun jarðhita í stað jarðefnaeldsneytis sparar gífurlegar fjárhæðir og veldur minni losun gróðurhúsalofttegunda en ella. Í þessu hefur verið hugað að öllum þremur grunnþáttum sjálfbærrar þróunar: Umhverfisvernd, efnahagsþróun og samfélagslegri velferð.

Þessi góði árangur er ekki sjálfsagður, heldur er hann ávöxtur vinnu fjölmargra góðra manna – kvenna og karla. Vísindamenn hafa þróað aðferðir til að þekkja og kortleggja jarðhitann og verkfræðingar hafa fundið leiðir til að nýta hana til góðra verka. Ráðamenn hjá ríkisvaldi og sveitarfélögum hafa stutt við leit að jarðhita og nýtingu hans, líka á svokölluðum “köldum svæðum” þar sem áður var talið vonlaust að finna heitt vatn. Það hafa margir lagt gjörva hönd á plóg og það fer vel á því að þetta félag heiðri þá sem það hafa gert í starfi sínu og á þessum fundi.

Það hefur verið nokkuð kapp í virkjun jarðhita á Íslandi undanfarin ár og þess sjást víða merki, ekki síst í útjaðri höfuðborgarinnar. Aðeins örfá lönd munu nýta jarðhita í meira mæli en hér á landi og þau eru meðal fjölmennustu ríkja heims – Kína, Japan og Bandaríkin. Nýting jarðhita nú er með nokkrum öðrum hætti en fyrr, þar sem hún er einkum til rafmagnsframleiðslu fyrir stórnotendur fremur en fjölþætta nýtingu fyrir atvinnulíf og almenning. Það þarf ekki að vera slæmt, en kallar á að við skoðum vel næstu skref í nýtingu okkar á auðlindinni.

Það hefur lengi loðað við þá sem gegna embætti umhverfisráðherra, að þeir séu sakaðir um að vera á móti margvíslegri ef ekki mestallri athafnasemi mannfólksins – og það á ekki bara við um Ísland eða þá sem nú situr í stóli umhverfisráðherra. Það er auðvitað eðli umhverfisverndar að vilja gæta þeirra verðmæta sem felast í náttúrunni og koma í veg fyrir mengun og önnur neikvæð áhrif af hvers kyns framkvæmdum. Umhverfisráðherrar þurfa að tryggja að kappi og framkvæmdagleði fylgi forsjá.

Nú heyrast raddir sem telja að við höfum ekki efni á mikilli forsjá í okkar efnahagsþrengingum, heldur þurfum við að spýta í lófana og helst að byggja hér verksmiðjur – því stærri og því hraðar, því betra. Ég held að fátt sé fjær sanni en slíkur málflutningur. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það að ein meginniðurstaðan í þeirri miklu úttekt sem nú hefur verið gerð á fjármálahruninu íslenska er að kapp verður að vera með forsjá. Slíkt er ekki bara ágætur siður, það er höfuðnauðsyn.

Við þurfum að meta vel þau verðmæti sem felast í jarðhitanum á Íslandi og hvernig hægt er að nýta þau áfram á sjálfbæran hátt og hámarka ávinning af þeim og fyrir sem flesta. Hvernig gerum við það? Við gerum það meðal annars með því að meta náttúruverndargildi jarðhitasvæða, því mörg þeirra eru einstök á heimsvísu og eru verðmæt fyrir ferðaþjónustu og fyrir þjóðarvitund okkar Íslendinga og ímynd. Það hefur verið unnið merkilegt starf í þessum efnum, m.a. á vegum Náttúrufræðistofnunar undir fána Rammaáætlunar, sem hjálpar okkur að taka ákvarðanir um hvaða svæði sé best að nýta og hver beri að vernda. Við þurfum líka að meta vel og vísindalega hversu mikla nýtingu hvert jarðhitasvæði þolir, þannig að þau gefi af sér hámarks afrakstur til langs tíma. Það þarf að gæta vel að góðum vinnubrögðum og vönduðum undirbúningi nýtingar. Það er erfiðara að meta fyrirfram afrakstursgetu jarðhitasvæðis en t.d. fallvatna. Það er því ekki skynsamlegt að byrja framkvæmdir við stór og orkufrek iðjuver ef ekki liggur fyrir góð og áreiðanleg vitneskja um þær orkulindir sem eiga að knýja þau. Ég velti þeirri spurningu upp hvort jarðhitinn henti betur til starfsemi á borð við gagnaver, sem eru tiltölulega sveigjanleg í orkuþörf, en í starfsemi þar sem hagkvæmni stærðarinnar virðist skipta höfuðmáli. Við megum ekki byrja á öfugum enda í nýtingu orkulinda, þannig að fyrst sé gengið frá hagstæðum samningi fyrir notandann, en áhættunni við óvissu um orkuöflun sé velt yfir á þjóðina og framtíðina.

Að síðustu tel ég að við verðum að hyggja að mengun frá jarðvarmavirkjunum og þá á ég auðvitað sérstaklega við brennisteinsvetni. Við getum þakkað jarðhitanum að við búum við hreinna loft en ella á höfuðborgarsvæðinu og það væri öfugþróun ef nýting hans færi að vera áberandi mengunarvaldur þar eða annars staðar.

Ég lít ekki á þessi atriði sem ég hef nú nefnt sem steina í götu nýtingar jarðhita, heldur sem forsendur fyrir áframhaldi á þeirri vegferð sem við Íslendingar höfum markað til þessa varðandi sjálfbæra nýtingu á endurnýjanlegri orku. Við teljum okkur gjarnan vera í fararbroddi á heimsvísu varðandi þekkingu á jarðhita og nýtingu hans og það er margt sem nú er gert sem styður þá fullyrðingu. Niðurdæling á koldíoxíði niður í berglög á Hellisheiði er merkilegt tilraunaverkefni á heimsvísu, sem getur nýst í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Fleiri loftslagsvæn nýsköpunarverkefni tengd jarðhita mætti nefna. Það má líka nefna uppbyggingu Bláa lónsins og Jarðbaðanna við Mývatn í þessu samhengi og möguleika jarðhitans í heilsutengdri ferðaþjónustu.

Þróunin á heimsvísu er skýr. Alls staðar er nú áhersla á skynsamlegri og betri nýtingu orku, en ekki á óheftan vöxt. Brennsla kola og olíu mun leiða til alvarlegrar og óafturkræfrar röskunar á loftslagi jarðar ef ekki er að gert. Kjarnorku fylgir mikil áhætta og hættulegur úrgangur. Endurnýjanleg orka er besta lausnin, en einnig þar þarf að tryggja skynsamlega nýtingu og lágmarks umhverfisáhrif. Þar eru sóknarfæri okkar, í að þróa lausnir sem tryggja sem besta nýtingu jarðhitans með sem minnstum aukaverkunum. Við eigum hér nú þegar einstakan þekkingarklasa, svo ég noti orð sem er í tísku, á sviði jarðhitans og við eigum að styrkja hann enn frekar með rannsóknum og þróun og með því að fylgja hugmyndafræði sjálfbærni. Bæði orkan okkar og sú þekking sem við þróum til að nýta hana á skynsamlegan hátt munu aukast að verðmæti eftir því sem krafan um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum verður sterkari. Við þurfum ekki og megum ekki selja orkulindir okkar á brunaútsölu þótt nú sé tómahljóð í kassanum.

Góðir gestir,

Það er tími naflaskoðunar í íslensku samfélagi og við spyrjum okkur hvernig svo ríkt samfélag af náttúruauði og mannauði gat orðið fyrir fjárhagslegu hruni, svo stórkarlalegu að eftir er tekið víða um heim. Við getum ekki kvartað yfir að hafa ekki fengið ítarleg svör við þeirri spurningu, þótt fæst okkar hafi kannski blaðað í gegnum þau öll ennþá. En því fer auðvitað fjarri að við Íslendingar þurfum að lúta höfði yfir því góða samfélagi sem hér hefur verið byggt upp, áður en sú hugmyndafræði tók völdin að óheft flýtigróðafíkn væri aflvaki flestra framfara í landinu og heiminum. Það er ekkert “2007-skrum” að segja að við Íslendingar getum verið stolt af nýtingu jarðhitans og þeirri þekkingu sem við búum yfir á því sviði. Það er algengur og góður siður að taka erlenda opinbera gesti í heimsókn í einhverja af jarðhitavirkjunum okkar og segja þeim þá merkilegu sögu sem sagan um nýtingu jarðhitans er. Ég átti nýlega fund með forseta Maldív-eyja, sem sér fram á að heimaland hans hverfi að miklu leyti undir sjávarborð innan örfárra kynslóða ef okkur tekst ekki að leysa loftslagsvandann; hann var heillaður af þessari sögu og vill fá aðstoð við að gera Maldív-eyjar kolefnishlutlausar innan nokkurra ára. Við eigum að halda þessum árangri á lofti og byggja til framtíðar á sömu gildum og eru grunnur að hitaveitum okkar og almenningssundlaugum og Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna og öllum þeim góðu verkum sem hafa verið unnin af þeim sem hafa komið að rannsóknum og nýtingu jarðvarmans. Ég óska Jarðhitafélaginu alls hins besta á 10 ára afmælinu og fundarmönnum hér gagnlegs og ánægjulegs vorfundar.

Takk fyrir,

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta