Víða truflanir á samgöngum vegna eldgossins í Eyjafjallajökli
Alþjóðlegu flugöryggissamtökin Flight Safety Foundation hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau þakka Alþjóða flugmálastjórninni og þeim flugstjórnarmiðstöðvum sem hafa takmarkað flug vegna öskufalls úr gosinu í Eyjafjallajökli.
Flugmálayfirvöldum er þakkað fyrir að setja öryggi ofar öllu og koma í veg fyrir hugsanlegan harmleik með aðgerðum sínum. Sérstöku viðvörunarkerfi sem vaktar öskudreifingu var komið upp á níunda áratugnum í kjölfar atburða þegar þotur í alþjóðlegu flugi voru hætt komnar þegar hreyflar stöðvuðust þegar flogið var inní öskuský. Segir að vöktunarkerfið hafi sannað gildi sitt fullkomlega með því að grípa inn í og takmarka flug sem meðal annars hafi haft áhrif á fjölförnustu flugleiðir heimsins. ,,Kerfið varaði flugstjórnarmiðstöðvar um gjörvalla Evrópu við í tíma og með samstarfi innan Eurocontrol var mögulegt að forða þúsundum þota frá því að því að lenda í hremmingum,” segir í yfirlýsingunni.
- Sjá má fréttir um spásvæði öskudreifingar á vef Flugstoða.
- Einnig má fá upplýsingar á vef Eurocontrol.
Unnið að viðgerð á Hringvegi
Hringvegurinn við Markarfljótsbrú er enn lokaður þar sem skörð voru rofin í hann í gær til að létta á álagi við Markarfljótsbrú vegna vatnavaxta í fljótinu. Verið er að undirbúa viðgerð og er stefnt að því að opna veginn sem fyrst. Síðar í dag kemur í ljós hvort af því getur orðið en samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er allmikið verk framundan við lagfæringar.
Framkvæmdir við Landeyjahöfn lágu niðri í gær en þeim var haldið áfram í dag. Meðan vindátt er hagstæð er unnt að sinna verkefnum þar ótruflað en staðan er metin frá degi til dags.