Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2010 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmála- og mannréttindaráðherra mælti fyrir sex frumvörpum á Alþingi

Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra mælti í dag fyrir sex frumvörpum á Alþingi. Frumvörpin varða fækkun lögregluumdæma á landinu o.fl., breytingu á lögum um framkvæmdavald í héraði, breytingu á útlendingalögum varðandi hælismál, bætta réttarstöðu skuldara, sameiningu Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands og breytingar á lögum um embætti sérstaks saksóknara.

Fækkun lögregluumdæma o.fl.

Frumvarp um fækkun lögregluumdæma o.fl. er fyrri áfanginn í endurskipulagningu á skipan löggæslu og sýslumannsembætta. Í þessari tillögu um breytingu á lögreglulögum er lagt til að lögregluumdæmum verði fækkað úr 15 í 6 og samhliða verði yfirstjórn lögreglu aðskilin frá sýslumannsembættum. Starfsemi þessara tveggja stofnanaflokka er nátengd enda eru 13 sýslumenn einnig lögreglustjórar. Gert er ráð fyrir að breytingar á skipan lögregluembætta taki gildi í upphafi næsta árs og verði þá sex lögregluembætti á landinu auk ríkislögreglustjóra og lögregluskólans; eitt á höfuðborgarsvæðinu, annað á Suðurnesjum hið þriðja á Vesturlandi og Vestfjörðum, fjórða á Norðurlandi, fimmta á Austurlandi og loks eitt embætti á Suðurlandi.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að skoðað verði hvaða verkefni skuli færð frá embætti ríkislögreglustjóra í því skyni að embættið verði fyrst og fremst miðlæg stjórnsýslustofnun. Kveðið er á um að settur verði á fót verkefnishópur sem verði m.a. falið að gera tillögur að því.

Á komandi haustingi er svo áformað að leggja fram frumvarp um breytta skipan sýslumannsembætta er taki mið af skiptingu landsins í stjórnsýslusvæði samkvæmt sóknaráætlun 20/20. Stækkuð sýslumannsembætti verði stjórnsýslumiðstöðvar ríkisins í héraði og unnið verði að því í samstarfi við önnur ráðuneyti að færa verkefni og þjónustu til þeirra.

Sjá nánar í frétt á vef ráðuneytisins og skýrslu Þorleifs Pálssonar, fyrrverandi sýslumanns í Kópavogi, um tillögur að breytingum á skipan sýslumannsembætta í landinu.

Í frumvarpi um breytingu á lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði er að finna ákvæði til bráðabirgða, með gildistíma til 1. janúar 2015, þess efnis að ef sýslumanni verði veitt lausn frá störfum eða forfallist af öðrum ástæðum, geti dómsmálaráðherra falið öðrum sýslumanni að gegna embættinu til allt að eins árs í senn. Frumvarpið er lagt fram með hliðsjón af áformum um breytingar á sýslumannsembættum, því mikilvægt er að þeim embættum sem losna sé ráðstafað með skynsamlegum og lögmætum hætti án þess að stofnað sé til óþarfa ríkisútgjalda.

Bætt réttarstaða skuldara

Í frumvarpi til laga um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., lögum um nauðungarsölu, lögum um lögmenn og innheimtulögum eru lagðar til breytingar er miða að því að bæta réttarstöðu skuldara. Frumvarpið er unnið í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu að höfðu samráði við Alþýðusamband Íslands og réttarfarsnefnd.

Lagðar til breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. Í þeim felst að skiptastjóri þrotabús geti heimilað einstaklingi sem tekinn er til gjaldþrotaskipta að búa áfram í íbúðarhúsnæði í eigu þrotabúsins í allt að tólf mánuði. Þarf skiptastjóri ekki að leita til þessa samþykkis veðhafa í eigninni en áskilið er að hann leiti eftir afstöðu þeirra. Fyrir afnotin af húsnæðinu skal þrotamaður greiða leigu sem nemi a.m.k. þeim kostnaði sem þrotabúið ber af eigninni.

Þá eru lagðar til breytingar á lögum um nauðungarsölu varðandi uppboðsskilmála. Tilgangurinn með þessari breytingu er sá sami og með breytingunum á gjaldþrotaskiptalögunum, þ.e. að hafi sá sem búið hefur á hinni seldu eign og haldið þar heimili þörf fyrir að vera þar áfram um nokkurn tíma þá eigi hann þess kost.

Einnig er lögð til breyting á 57. gr. nauðungarsölulaga þar sem kveðið er á um hvernig farið skuli með þær kröfur sem ekki fást greiddar við nauðungarsölu. Í frumvarpinu er lögð til sú regla að sá sem notið hefur réttinda yfir eign sem seld er nauðungarsölu, t.d. átt veðrétt í eigninni, en hefur ekki fengið fulla greiðslu af söluverðinu, geti einungis krafið gerðarþola eða annan um mismun þess sem er á eftirstöðvum skuldarinnar og markaðsvirði hinnar seldu eignar.

Auk ofangreinds eru lagðar til breytingar á lögum um lögmenn og innheimtulögum. Er þar lagt til að skilgreint verði hvað felist í löginnheimtu skv. innheimtulögum og lögum um lögmenn. Þá er lagt til að dómsmálaráðherra gefi út leiðbeiningar handa lögmönnum um endurgjald frá skuldara við innheimtu skulda. Er með þessari reglu reynt að vernda skuldara gegn óhóflegum innheimtukostnaði lögmanna.

Sameining Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands

Í frumvarpinu er lagt til að starfsemi Þjóðskrár sem nú er rekin sem skrifstofa í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu og starfsemi Fasteignaskrár Íslands sem er ríkisstofnun á ábyrgðarsviði dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins verði sameinuð í nýja stofnun sem fái heitið Þjóðskrá Íslands. Lagt er til að sameiningin miðist við 1. júlí nk.

Frumvarpið grundvallast á tillögum samráðshóps um málefni Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands sem síðastliðið haust var falið að kanna til hlítar hagkvæmni þess að sameina þessa starfsemi í eina stofnun. Það var niðurstaða hópsins að með sameiningu megi í senn ná fram fjárhagslegri hagkvæmni og framþróun í skráarhaldi. Nú þegar hafa tölvudeildir Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands verið sameinaðar en það var gert 1. janúar 2010. Sjá nánar í frétt á vef ráðuneytisins.

Breytingar á útlendingalögum varðandi hælismál

Frumvarpið byggir á tillögum sem settar voru fram í skýrslu nefndar um meðferð hælisumsókna dags. 17. júlí 2009 og þróun löggjafar í Evrópu.

Helstu nýmæli frumvarpsins eru eftirfarandi:

  • Aukin vernd þeirra sem ekki eru flóttamenn samkvæmt skilgreiningu alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 eða Flóttamannasamningsins, þannig að þeir sem eiga á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, verði þeir sendir aftur til heimalands síns, teljist einnig til flóttamanna (svokölluð viðbótarvernd). Fram til þessa hefur einstaklingum í þessari aðstöðu verið veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum.
  • Skýrari reglur um veitingu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
  • Skýrari reglur um meðferð hælisumsókna og réttarstöðu hælisleitenda.

Breyting á lögum um sérstakan saksóknara

Meginmarkmið frumvarpsins er að skilgreina með skýrari hætti en nú er gert hvert sé verksvið embættis sérstaks saksóknara gagnvart öðrum handhöfum ákæruvalds.

Lagt er til að verksvið embættisins skv. 1. gr. laganna verði miðað við rannsókn og saksókn þegar fyrir hendi er grunur um refsiverða háttsemi sem tengst hefur starfsemi fjármálafyrirtækja, eigenda þeirra, stjórnenda og annarra sem þeim tengjast án tillits til þess hvort slík fyrirtæki tengist þeim atburðum er leiddu til setningar laga nr. 125/2008.

Þá er jafnframt lögð til breyting á 5. mgr. 2. gr. laganna á þann veg að ríkissaksóknari geti falið sérstökum saksóknara að fara með önnur mál en þau sem falla undir 1. gr. laganna ef það þykir hagkvæmara. Þá geti ríkissaksóknari falið öðrum ákæranda að fara með mál sem fellur þar undir, t.d. ef rannsókn er þegar hafin á máli er kann að eiga rætur að rekja til þeirra atburða sem vísað er til í 1. gr. en tengist ekki falli fjármálafyrirtækjanna eða öðrum þeim atburðum sem fyrst og fremst leiddu til setningar laga nr. 125/2008. Þessi breyting er hugsuð til að auka á hagkvæmni við rannsókn mála en er ekki ætlað að hafa áhrif á starfssvið sérstaks saksóknara eins og það var hugsað af hálfu löggjafans þegar embættið var sett á fót.

Þá eru með frumvarpi þessu lagðar til þrjár breytingar á lögum um meðferð sakamála. Í fyrsta lagi til að leiðrétta tvær villur sem læddust inn í lagatextann og í öðru lagi til að taka af skarið að heimilt sé að kæra til Hæstaréttar úrskurði héraðsdómara um að skipa sakborningi verjanda eða synja honum um að fá skipaðan verjanda í sakamáli. Slík heimild var í eldri lögum og þykir rétt að taka af skarið að þessi regla á enn við.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta