Forsætisráðherra fundar með Evu Joly
Forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir átti fund með Evu Joly, ráðgjafa sérstaks saksóknara í dag til að heyra hennar viðhorf um stöðu mála og nauðsynlegar aðgerðir við rannsókn efnahagsbrota í ljósi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.
Fram kom á fundinum að Eva væri mjög ánægð með þróun mála á Íslandi, ekki síst hve rannsóknarskýrslan væri sterkur og góður grundvöllur fyrir framhaldið. Að mati Evu markaði útkoma skýrslunnar tímamót og væri hún einsdæmi í heiminum.
Ljóst væri að með útgáfu skýrslunnar væri nauðsynlegt að stórefla umfang sérstaks saksóknara og mögulega þyrfti að breyta lögum til að tryggja rannsóknarhagsmuni enn frekar og unnið yrði að útfærslu slíkra tillagana á vettvangi sérstaks saksóknara og dóms- og mannréttindamálaráðuneytis á komandi dögum.
Forsætisráðherra færði Evu Joly þakkir fyrir hennar mikilvægu liðveislu við rannsókn og uppgjör á þeim atburðum sem leiddu til bankahrunsins. Hennar aðkoma skipti miklu máli í því mikilvæga verkefni íslenskra stjórnvalda að endurreisa traust í íslensku samfélagi.