Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2010 Matvælaráðuneytið

Nr. 24/2010 - Viðbrögð við afleiðingum gossins á matvæla- og fæðuöryggi þjóðarinnar

Fundur v eldgoss 16 april
Fundur v eldgoss 16 april

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra boðaði til fundar í ráðuneytinu í dag um möguleg áhrif eldgossins í Eyjafjallajökli á landbúnað og sjávarútveg og viðbrögð við því.

Til fundarins voru boðaðir fulltrúar frá Matvælastofnun, Hafrannsóknastofnuninni, Veiðimálastofnun, MATÍS, Bændasamtökum Íslands, Búnaðarsambandi suðurlands, Samtökum fiskvinnslustöðva og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ennfremur komu til fundarins Ágúst Gunnar Gylfason fulltrúi frá Almannavörnum og Ármann Höskuldsson jarðfræðingur frá Háskóla Íslands og fræddu um gosið og horfurnar framundan eftir því sem vitað er.

Tilgangurinn með fundinum var að meta eins og hægt var á þessum tíma möguleg áhrif gossins á landbúnað þ.m.t. heilbrigði dýra, sjávarútveg, matvæla- og fæðuöryggi þjóðarinnar og aðra þætti sem falla undir ráðuneytið og tryggja að hlutaðeigandi stofnanir og samtök séu tilbúin að takast á við þau verkefni sem nauðsyn getur borið til. Fyrir liggur að áhrifin verða mest á landbúnað og ekki síst heilbrigði búfjár á þeim svæðum sem áhrif gossins ná til.

 

Fyrir liggur einnig að áhrif öskunnar geta verið mjög alvarleg og er tækifærið hér notað til að hvetja alla búfjáreigendur á svæðum þar sem að aska hefur fallið að taka búfé á hús og aðra að undirbúa strax ráðstafanir þar sem að líklegt er að aska geti fallið á næstunni. Búfjáreigendur eru beðnir að fylgjast vel með tilmælum Matvælastofnunar, sveitarfélaga og samtaka bænda varðandi viðbrögð og aðgerðir.

 

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ákvað að skipa strax starfsshóp undir forystu ráðuneytisins sem hefur það hlutverk að fara yfir og halda utan um samræmdar aðgerðir stofnana og samtaka vegna þessa goss. Er honum ætlað að marka skammtímaaðgerðir og einnig aðgerðir til lengri tíma sem kunna að vera nauðsynlegar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta