Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2010 Matvælaráðuneytið

Önnur endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands samþykkt í stjórn AGS

Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) samþykkti í dag föstudag 16. apríl 2010 á fundi í höfustöðvum AGS í Washington aðra endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS. Við samþykkt stjórnar AGS verður til reiðu lánafyrirgreiðsla sjóðsins að fjárhæð 20 ma. króna. Einnig er gert ráð fyrir að íslensk stjórnvöld fái aðgang að láni frá Póllandi að fjárhæð 9 ma. króna. Þá er gert ráð fyrir lánafyrirgreiðslu Norðurlandaþjóða í tengslum við þessa endurskoðun að fjárhæð 76 ma. króna. Þau lán sem standa til boða við þessa endurskoðun nema því 105 ma. króna í heild, sem nýta má til að styrkja gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans.

Við endurskoðunina sendu íslensk stjórnvöld sjóðnum nýja viljayfirlýsingu sem lýsir efnahagsstefnu Íslands, þeim árangri sem þegar hefur náðst og næstu skrefum sem leggja munu grunn að efnahagsbatanum. Markmiðum um stöðugt gengi hefur verið náð og gert er ráð fyrir að verðbólga fari ört lækkandi. Einnig er lokið fjármögnun nýju viðskiptabankanna, auk þess sem ríkisstjórnin hefur kynnt fjölþætt úrræði fyrir skuldsett heimili og fyrirtæki.  

Bætt skuldastaða hins opinbera hefur einnig skilað þeim árangri að draga má úr áætluðum samdrætti ríkisútgjalda miðað við fyrri viðmið. Gert ráð fyrir að skuldir hins opinbera verði töluvert minni en áætlað var við upphaf áætlunarinnar og verði að hámarki 95% af landsframleiðslu árið 2014 sem jafngildir 65% hreinni skuldastöðu í hlutfalli við landsframleiðslu.

Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar byggir sem fyrr á þremur meginþáttum, þ.e. áherslu á gengisviðmið við peningastjórn til skemmri tíma, uppbyggingu trausts fjármálakerfis og styrka stjórn fjármála ríkis og sveitarfélaga. Einnig er lögð rík áhersla á aðgerðir vegna skuldavanda heimila og fyrirtækja.


Íslensk stjórnvöld skuldbinda sig í viljayfirlýsingunni til þess að styrkja enn eftirlit með fjármálamarkaði til að skjóta enn styrkari stoðum undir endurreist bankakerfi. Í því skyni hefur ráðherra lagt fram frumvarp til laga um fjármálamarkaðinn, um tryggingasjóð innistæðueigenda og verðbréfamarkaðinn sem er nú til umfjöllunar á Alþingi.  Stjórnvöld munu einnig styrkja og bæta umgjörð fjármála sveitarfélaga. Ætlunin er að ná viðtækri samvinnu um að bæta fjárhagsstöðu sveitarfélaganna til framtíðar og samþætta stefnu þeirra í fjármálum enn frekar höfuðmarkmiðum efnahagsáætlunarinnar. Í viljayfirlýsingunni eru einnig áréttað það markmið stjórnvalda að ná samningum við Hollendinga og Breta um endurgreiðslu þeirra fjármuna sem þeir hafa reitt af hendi vegna skuldbindinga Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta gagnvart innstæðueigendum netútibúa Landsbanka Íslands hf.

Við ákvörðun sína í dag féllst stjórn AGS á tillögu íslenskra stjórnvalda um að framlengja áætlunina um þrjá mánuði vegna þeirra tafa sem orðið hafa á endurskoðun hennar, eða til loka ágúst 2011 og hliðrast dagsetningar vegna endurskoðana samkvæmt áætluninni einnig til sem því nemur.

Á undanförnum vikum hefur verið unnið ötullega að því að fá endurskoðun samstarfsáætlunarinnar afgreidda í stjórn sjóðsins. Fjármálaráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra og aðstoðarseðlabankastjóri funduðu með Dominique Strauss-Kahn framkvæmdastjóra sjóðsins og fulltrúum í stjórn sjóðsins í Washington 25. – 26. mars 2010 auk þess sem efnahags- og viðskiptaráðherra fundaði með framkvæmdarstjóranum og fleiri stjórnarmönnum sjóðsins í Washington 7. apríl.

„Þrátt fyrir að töf hafi orðið á endurskoðun efnahagsáætlunarinnar höfum við náð öllum markmiðum sem sett voru og erum enn á góðri leið með þau verkefni sem fyrir liggja til að treysta efnahagsstöðugleika, draga úr áhrifum samdráttarins á skuldsett heimili og fyrirtæki og ná viðspyrnu í vexti landsframleiðslu,“ sagði Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra. „Afgreiðsla á endurskoðaðri efnahagsáætlun og aðgangur að lánsfé til að styrkja gjaldeyrisvaraforðann sýnir það traust sem stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og samstarfsþjóðir okkar hafa á þeim árangri og getu Íslendinga til að ná markmiðum sínum.“


Upplýsingar veitir Benedikt Stefánsson, aðstoðarmaður efnahags- og viðskiptaráðherra benedikt.stefansson [hja] evr.is    

Viljayfirlýsing íslenskra stjórnvalda

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta