Yfirlýsing frá ríkisstjórn Íslands
Ríkisstjórnin hitti á fundi sínum í morgun ríkislögreglustjóra og deildarstjóra almannavarnadeildar þar sem þeir kynntu almannavarnaástand á svæðinu í grennd við eldgosið í Eyjafjallajökli.
Eftir að eldgos hófst miðvikudaginn 14. apríl sl. í toppi Eyjafjallajökuls hefur viðbúnaðarkerfi almannavarna verið virkjað. Markmiðið er að koma í veg fyrir og takmarka eftir því sem unnt er að almenningur verði fyrir líkams- eða heilsutjóni og umhverfi eða eignir verði fyrir tjóni af völdum þessara náttúruhamfara.
Allur viðbúnaður almannavarnakerfisins hefur reynst afar traustur og samvinna verið góð og áreiðanleg á milli allra viðbragðsaðila. Íbúar svæðisins hafa sýnt aðdáunarverða stillingu sem ber að þakka. Þá er þáttur vísindamanna í greiningu á framvindu gossins og hlaupsins ómetanlegur við að varpa skýrari sýn á óvissuþætti. Lögreglan, Landhelgisgæslan, björgunarsveitir og viðbragðsaðilar allir eiga þakkir skildar fyrir þeirra framlag við að greiða fyrir störfum vísindamanna og almannavarna. Ríkisstjórnin sendir kveðju og þakkir til allra er lagt hafa hönd á plóg við að tryggja öryggi vegna gossins í Eyjafjallajökli.
Viðbúnaður mun miðast við að gos haldi áfram næstu daga og vikur. Því er áframhaldandi hætta á skyndihlaupum í ám og öskufalli sem geta haft umtalsverð áhrif á búsmala og mannvirki. Er almenningur og ferðmenn hvattir til þess að fylgjast vel með fréttum og upplýsingum frá almannavörnum og fara að öllu með gát. Grannt er fylgst með áhrifum eldgossins á flugumferð innan lands og utan. Ljóst er að öskudreifing frá eldgosinu hefur nú mikil áhrif á flugumferð í Evrópu. Öskudreifingarspá er gerð fjórum sinnum á sólarhring og áætlunum breytt í samræmi við þær og verður almenningur reglulega upplýstur um þróun mála.
Á vegum almannavarna í Samhæfingar- og stjórnstöðinni í Skógarhlíð eru viðbrögð allra viðbragðsaðila og aðgerðarstjórnar á Hellu samhæfð um allt land í traustu samstarfi þessara aðila og systurstofnana þeirra erlendis.
Reykjavík 16. apríl 2010