18 - 2010 Öskuský – átök um réttindi farþega í flugi
Samtök flugfélaga í heiminum, IATA, telja að öskuskýið frá gosinu í Eyjafjallajökli muni kosta flugfélög um það bil 1,3 milljarða evra (um 1,7 milljarða dollara). Samtök flugvalla í Evrópu, ACI Europe, telja tap flugvalla verða um 250 milljónir evra.
Nú er kallað eftir fjárhagslegri aðstoð einstakra ríkja og framkvæmdastjórnar ESB við þá sem orðið hafa fyrir skaða. Þá er jafnframt rætt um annars konar tilslakanir eins og að flugfélög missi ekki afgreiðslutíma á flugvöllum þó þeir hafi ekki verið nýttir eins og reglur segja til um og að leyfa flug að nóttu til til að koma farþegum sem orðið hafa strandaglópar sem fyrst til síns heima. Kostnaður við uppihald slíkra farþega er mikill baggi á flugfélögum.
Þá hefur borið á því að flugfélög hafi í æ ríkari mæli reynt að koma sér undan reglum um réttindi farþega sem skylda þau til að sjá farþegum meðal annars fyrir hressingu og gistingu. Fjöldi farþega sem orðið hafa strandaglópar vegna öskuskýsins kvartar undan framkomu flugfélaga. Sum flugfélög hafa neytt farþega til að undirrita skjöl þar sem þeir gefa frá sér réttindi sín áður en þeir fá að fara um borð í flugvélar sem flytja þá heim. Önnur endurgreiða miðaverð en ekki flugvallarskatta. Enn önnur flugfélög láta farþega sjá um sig sjálfa.
Framkvæmdastjóri IATA, Giovanni Bisignani, hefur hvatt framkvæmdstjórnina til að aðstoða flugfélög til að létta á því sem hann kallar ósanngjarnar kröfur til flugfélaganna. Framkvæmdastjórnin hefur ítrekað að engin undanþága verði gefin frá reglum um réttindi farþega vegna öskuskýsins.
Þegar hafa komið fram atvik sem kalla má beina ögrun við reglur ESB um réttindi farþega í flugi. Framkvæmdastjóri Ryanair, Michael O´Leary, lýsti því yfir þann 21. apríl 2010 að félag hans muni eingöngu endurgreiða miðaverð en ekki taka þátt í kostnaði umfram það. Daginn eftir dró hann yfirlýsingar sínar til baka og lýsti því yfir að félag hans myndi fara eftir reglum ESB sem hann lýsti sem fáraánlegum og að með þeim væri flugfélögum mismunað. Þann sama dag, 22. apríl, lýsti Sim Kallas, sem er yfirmaður samgöngumála í framkvæmdastjórninni, því yfir að engir afslættir yrði gefnir af reglum um réttindi farþega. Framkvæmdastjóri Ryanair sagðist áfram vinna að því að fá framkvæmdastjórnina til að breyta reglum og gera þær sanngjarnarir fyrir flugfélög.
Þetta má lesa í 3964-hefti Europolitics
Og jafnframt í 3963-hefti Europolitics