Starfsemi Sparisjóðsins í Keflavík og Byrs sparisjóðs yfirtekin af nýjum fjármálafyrirtækjum
Helstu atriði:
- Ný fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins taka við starfsemi Sparisjóðsins í Keflavík og Byrs sparisjóðs.
- Innstæður eru tryggðar.
- Engin röskun er á þjónustu við viðskiptavini.
Undanfarna mánuði hafa stjórnvöld fylgst með samningaviðræðum Byrs sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík við kröfuhafa, með það fyrir augum að renna traustum stoðum undir efnahag og rekstur sparisjóðanna með frjálsum samningum. Í samræmi við fyrri yfirlýsingar hafa stjórnvöld boðið fram tiltekið eiginfjárframlag að því tilskyldu að samkomulag næðist um niðurfærslu skulda þar sem byggt er á ítarlegu mati á eignum og rekstri stofnananna og tryggt yrði að áhætta ríkissjóðs yrði í lágmarki.
Þessum viðræðum kröfuhafa Byrs og Sparisjóðsins í Keflavík lauk með þeirri niðurstöðu að nokkrir kröfuhafar í hvoru tilviki höfnuðu tillögu að samkomulagi. Stjórn Sparisjóðsins í Keflavík og stjórn Byrs sparisjóðs hafa því hvor um sig farið þess á leit við Fjármálaeftirlitið að það taki yfir starfsemi viðkomandi fyrirtækis.
Í samræmi við verklag, sem áður hefur verið viðhaft, hefur Fjármálaeftirlitið tekið ákvörðun um að flytja innlán og eignir sparisjóðanna til nýrra fjármálafyrirtækja sem stofnuð hafa verið og eru að fullu í eigu ríkisins. Nýr sparisjóður yfirtekur þar með öll innlán í Sparisjóðnum í Keflavík og eignir til að mæta þeim skuldbindingum. Innlán og eignir Byrs flytjast á sama hátt til nýs fjármálafyrirtækis sem stofnað er í þessu skyni.
Innlán í Byr og Sparisjóðnum í Keflavík eru sem áður aðgengileg og allir viðskiptavinir munu hafa fullan aðgang að fjármálaþjónustu. Höfuðstöðvar fyrirtækjanna og öll útibú þeirra opna á föstudag að venju og öll þjónusta helst óbreytt. Aðgengi að hraðbönkum, netbanka, öllum greiðslukortum og greiðslumiðlun er því með eðlilegum hætti. Jafnframt er áréttað að í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi tryggðar að fullu.
Sem kunnugt er hafa staðið yfir aðgerðir til að endurskipuleggja rekstur sparisjóða sem lentu í erfiðleikum vegna áfalla á fjármálamarkaði. Fyrir liggja drög að samkomulagi vegna endurskipulagningar á skuldum smærri sparisjóða og unnið er að lokafrágangi. Með því verður traustum stoðum rennt undir rekstur og efnahag þeirra.