Flókið að halda úti skipulagi millilandaflugs
Samhæfing á skipulagi millilandaflugs meðan öskuský truflar bæði innanlands- og millilandaflug landsmanna fer fram á vegum aðgerðarstjórnstöðvar Flugstoða. Daglegir fundir eru þar haldnir með þeim sem koma við sögu í flugrekstri og flugþjónustu
Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, heimsótti stjórnstöðina í dag og þakkaði bæði opinberum starfsmönnum og fulltrúum flugrekenda fyrir skjót viðbrögð við þessar erfiðu aðstæður og að geta haldið úti skipulögðu millilandaflugi. Ein viðamesta aðgerðin hefur annars vegar verið að færa millilandaflug flugfélaganna frá Keflavík til Akureyrar og hins vegar að flytja miðstöð millilandaflugs Icelandair frá Keflavík til Glasgow.
Fram kom á fundinum í dag að vonast er til að innanlandsflugið geti verið með eðlilegu móti á morgun, mánudag, og að unnt verði að reka millilandaflug frá Keflavík á þriðjudag og hugsanlega á morgun að einhverju leyti.
Til að annast skyndilega stóraukið millilandaflug um Akureyrarflugvöll hefur í fyrsta lagi orðið að skipuleggja afgreiðslu véla og farþega, öryggisviðbúnað og tollmeðferð, samræma tímasetningar og bæta við bæði starfsmönnum og tækjum. Hafa tugir starfsmanna verið sendir norður til að annast verkefnið og eru það bæði starfsmenn flugrekenda og yfirvalda.
Aðeins fáar millilandaþotur komast fyrir á stæðum Akureyrarflugvallar í senn og má segja það lán í óláni að innanlandsflugið lá niðri í dag sem hefur auðvelda afgreiðslu millilandavéla. Þrátt fyrir það hefur orðið að senda þotur til Egilsstaða til að geyma þar ef þeirra hefur ekki verið þörf strax fyrir flug frá Akureyri.
Fram kom á fundinum í dag að völlurinn á Akureyri er fullbókaður og unnt að annast allar ferðir sem flugfélögin óskuðu eftir. Örlítil töf varð þegar fraktvél frá Akureyri varð að snúa við vegna bilunar og þurfti þá að beita útsjónarsemi við að koma öllum vélum fyrir.