Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2010 Innviðaráðuneytið

Mælt fyrir samgönguáætlun á Alþingi

Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur mælt fyrir tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun áranna 2009 til 2012. Í áætluninni er sett fram verkefnaáætlun og fjármögnum fyrir árin 2010 til 2012.

Samgönguáætlun hefur verið lögð fram á Alþingi.
Samgönguáætlun hefur verið lögð fram á Alþingi.

Markmið samgönguáætlunar eru sem fyrr greiðari samgöngur, hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri, umhverfislega sjálfbærar samgöngur, öryggi og jákvæð byggðaþróun.

Fram kom í máli ráðherra að í framhaldinu er gert ráð fyrir því að á næsta þingi verði lögð fyrir tólf ára samgönguáætlun sem tæki til áranna 2011 til 2022 og að jafnframt verði fjögurra ára áætlunin endurskoðuð.

Samþætting áætlana

Fyrir liggur sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að mótuð verði heildstæð stefna fyrir Ísland í þágu atvinnulífs og samfélags, sóknaráætlun fyrir Ísland. Markmið hennar er að landið skipi sér aftur í fremstu röð í verðmætasköpun, menntun, velferð og lífsgæðum. Með sóknaráætlun er gert ráð fyrir samþættingu opinberra áætlana og með því stuðlað að betri nýtingu fjármuna og öflugu samstarfi stjórnsýslustiga og stofnana.

Gert er ráð fyrir að samþætting og samræmd forgangsröðun liggi fyrir í haust og að hún gæti  breytt tímasetningum og röðun framkvæmda í þessari áætlun.

Í ræðu sinni fór ráðherra síðan yfir helstu atriði áætlunarinnar og sagði meðal annars um fjárhagsforsendur hennar að gert væri ráð fyrir nálægt 10% samdrætti í framlögum til rekstrar á þessu og næsta ári og sömu framlögum árið 2012. ,,Gert er ráð fyrir um 10% niðurskurði á framkvæmdafé Siglingastofnunar Íslands og til flugmála en til vegaframkvæmda verði varið 7.500 millj. kr. árið 2011 og 7.000 millj. kr. árið 2012. Með tillögu þessari er gerð grein fyrir ráðstöfunum fjármuna í samræmi við fjárlög áranna 2009 og 2010 og framangreindum framlögum árin 2011 og 2012.”

Að venju skiptist samgönguáætlunin í:

1.      Almennan inngang.

2.      Flugmálaáætlun (13.577), sem inniheldur áætlun fyrir Flugmálastjórn Íslands, samtals 1.770 milljónir króna og fyrir flugvelli og flugleiðsöguþjónustu, samtals 11.807 milljónir þar af 980 til nýframkvæmda.

3.      Siglingamálaáætlun (7.980) en af henni fara 3.940 milljónir króna til rekstrar og 4.040 milljónir í nýframkvæmdir.

4.      Vegáætlun (84.427) en af henni fara 2.412 milljónir króna til reksturs Vegagerðarinnar, 19.000 milljónir í þjónustu, styrki og rannsóknir, 18.092 til viðhalds og 44.270 í nýframkvæmdir.

5.      Áætlun Umferðarstofu, samtals 2.156 milljónir króna.

6.      Umferðaröryggisáætlun, sem fjármögnuð er af vegáætlun, samtals 1.306 milljónir króna.

Aðrar fjármögnunarleiðir

Einnig minntist ráðherra á fyrirhugaðar sameiningar samgöngustofnana, að markmið ríkisstjórnarinnar væri að auka hlut almenningssamgangna í landinu og rík áhersla væri á umhverfismál. Unnið yrði nánar að stefnumörku á því sviði í næstu 12 ára áætlun. Þá gat ráðherra um að kannaðir hefðu verið möguleikar á að taka upp strandsiglingar á ný og væri skýrsla um þær nánast tilbúin. Síðan ræddi hann nokkuð um helstu framkvæmdir áætlunarinnar.

Undir lok ræðunnar fjallaði ráðherra um sérstaka fjármögnun vegna framkvæmda og hugsanlega breytta gjaldtöku. Sagði hann vegna niðurskurðar og þess að ekki væri unnt að auka skuldir ríkissjóðs hefði verið horft til annarra leiða við fjármögnun framkvæmda til dæmis með gjaldtöku. Markaðir tekjustofnar til samgöngumála stæðu ekki undir brýnum framkvæmdum og því mikilvægt að finna aðrar fjármögnunarleiðir. Ráðherra sagði mikilvægt að Alþingi fjallaði um og tæki afstöðu til þess hvaða framkvæmdum mætti hugsanlega flýta með gjaldtöku eða sérstöku framlagi.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta