Hoppa yfir valmynd
3. maí 2010 Utanríkisráðuneytið

Íslenski skálinn á heimssýningunni í Shanghai opnaður

  EXPO skáli inni opnun maí 2010

Íslenski skálinn á heimsýningunni EXPO 2010 í Shanghai var opnaður formlega 1. maí. Kristín A. Árnadóttir sendiherra Íslands í Kína, Pétur Ásgeirsson formaður framkvæmdastjórnar, Hreinn Pálsson framkvæmdastjóri íslenska skálans og Páll Hjaltason arkitekt og hönnuður íslenska skálans tóku vel á móti fyrstu gestum skálans með íslenskum gjöfum.

Verkefnið hefur farið vel af stað og Ísland tók þátt í svokallaðri prufuopnun EXPO svæðisins sem fram fór í lok apríl. Naut íslenski skálinn mikilla vinsælda og tók starfsfólk hans á móti 22.000 gestum á fjórum opnunardögum. Þá hefur íslenska þátttakan hlotið mikla umfjöllun í kínverskum fjölmiðlum síðastliðna mánuði. Um 10.000 manns hafa skoðað skálann daglega frá því að hann opnaði. Mikill áhugi er á stuttmynd um Ísland sem sýnd er í skálanum og vegna fjölda óska hefur myndskeiði af eldgosinu í Eyjafjallajökli verið bætt við myndina.

Markmið íslensku þátttökunnar á EXPO er að kynna Ísland sem áfangastað fyrir ferðamenn, hátæknilausnir á sviði jarðhita og íslenskt hugvit. Samstarfsaðilar úr íslensku viðskiptalífi eru nú þegar á sjöunda tug og koma þeir til með að nýta sér aðstöðu og/eða þjónustu skálans með einum eða öðrum hætti.

Verkefnið er samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins, Orkuveitu Reykjavíkur, Landsvirkjunar, Geysis Green Energy, Iceland Spring, Bláa Lónsins og Icelandair.  Að auki koma um 20 opinberir aðilar, fyrirtæki, samtök og stofnanir að skipulagi verkefnisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta