Menningarhátíðinni ”Norðurlönd unga fólksins” lauk í gær í Kuopio
Norræna félagið í Kuopio, sem er um 90.000 manna borg í Austur-Finnlandi, stóð fyrir viðamiklum norrænum menningardögum dagana 19.- 29. apríl 2010. Dagskráin var einkum sniðin með þarfir ungs fólks í huga. Um var að ræða stærsta einstaka norræna menningarviðburðinn sem nokkurn tímann hefur verið skipulagður í Finnlandi.
Dagskráratriði menningarhátíðarinnar voru rúm 50 talsins og drógu að um 11.000 manns. Meðal atriða má nefna kvikmyndir, tónleika, námstefnur, heimsóknir rithöfunda, sýningar og norrænan dýralaugardag. Þar voru m.a. til sýnis íslenski hesturinn sem og norski fjallahesturinn. Meðal annarra norrænna dagskráratriða má nefna heimsókn norsks flautuleikara og sýningu leikritsins Svinalängorna í bogarleikhúsinu í Kuopio í uppsetningu sænska þjóðleikhússins.
Íslendingar komu víða við sögu í dagskránni en eldgosið í Eyjafjallajökli hafði í för með sér að tónleikum Jóhönnu Guðrúnar þurfti að fresta um einhverjar vikur.
Þrír íslenskir rithöfundar komu fram á ýmsum stöðum í Kuopio. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, rithöfundur og skáld, spilaði á gítar og söng fyrir krakka á borgarbokasafninu í Kuopio og í tveimur skólum. Marjakaisa Matthíasson, þýðandi, var Aðalsteini til aðstoðar. Bók hans Dvergasteinn kom út í finnskri þýðingu í tengslum við menningardagana, í þýðingu Päivi Kumpulainen.
Kristín Steinsdóttir kynnti bók sína Á eigin vegum en hún kemur einnig út finnsku um þessar mundir. Um þýðingu bókarinnar sá Marjakaisa Matthíasson. Kristín var á Nifin 19. apríl og í Kuopio síðar í vikunni. Hún heimsótti borgarbókasafnið í Turku í sömu ferð.
Atenakustannus gaf út Popular Hits eftir Hugleik Dagsson í tilefni af menningarhátíðinni í Kuopio. Sýning á teiknimyndum hans var opnuð af sendiherra 20. apríl en að menningardögunum loknum mun sýningin verða sett upp á öðrum stöðum í nágrenni Kuopio. Hugleikur komst loks á leiðarenda til Kuopio fimmtudagsmorguninn 29. apríl eftir langt og strang ferðalag frá Íslandi. Þann dag hitti hann ungt fólk á borgarbókasafninu og áritaði bækur. Hann kynnti einnig nýju bókina sína í bókabúð í Kuopio og tók þátt í lokahófi í tengslum við aðalfund norræna félagsins í Kuopio. Þéttskipuð dagskrá hefur einnig verið útbúin fyrir Hugleik í Helsinki þaðan sem hann mun halda heim á leið um helgina.
Ekki varð úr áætlaðri þátttöku Jóhönnu Guðrúnar á kirkjutónleikum dagana 25.-26. apríl í Kuopio þar sem flugi var frestað. Ákveðið hefur verið að efna til tvennra tónleika í staðinn nú í maí í samstarfi við Icelandair og norræna félagið í Kuopio. Búist er við um 1000 manns á tónleikana.
Trio Nordica, m.a. með þær Auði Hafsteinsdóttur fiðluleikara og Bryndísi Höllu Gylfadóttur sellóleikara innanborðs, urðu einnig að fresta öllu tónleikahaldi í tengslum við menningardagana.
Íslenskt bókasafn er staðsett á borgarbókasafninu í Kuopio. Anna Einarsdóttir kynnti tilkomu þess og þróun. Íslenska kvikmyndin Nói Albínói var einnig sýnd á menningardögunum svo að nógu íslensku efni var að taka.
Finnska héraðsfréttablaðið Savon Sanomat (dreift í rúmum 65 000 eintökum / 160 000 lesendur) sagði fréttir af norrænu menningardögunum daglega. Íslensku þátttakendurnir fengu mikla og góða umfjöllun í blaðinu. Jákvæð umfjöllun um þessa viðamiklu menningarhátíð hefur notið mikillar athygli á svæðinu.
Vefsvæði menningardaganna (á finnsku):