Nr. 28/2010 - Ný reglugerð um strandveiðar
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, hefur undirritað reglugerð um strandveiðar fiskveiðiárið 2009/2010.
Þann 19. júní 2009 tóku gildi ný lög um frjálsar handfæraveiðar meðfram ströndinni eftir að Alþingi hafði samþykkt ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 66/2009 um breytingu á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Þessum lögum var ætlað að styrkja og örva atvinnustarfsemi í sjávarbyggðum. Markmiðið var jafnframt að ýta undir nýliðun í greininni og gefa fleirum en handhöfum kvóta möguleika á takmörkuðum veiðum.
Á föstudaginn síðasta samþykkti Alþingi heimild til strandveiða til frambúðar en fyrirkomulag veiðanna verði í meginatriðum það sama og í fyrra. Þannig er gert ráð fyrir að strandveiðar muni einkum takmarkast af þeim aflaheimildum sem ráðstafað er sérstaklega til veiðanna, eða allt að 6.000 lestum af óslægðum botnfiski í stað 3.995 lesta af þorski auk annarra tegunda líkt og var á síðasta ári.
Svo ekki yrðu tafir á laga- og reglugerðarsetningu undirritaði handhafi forsetavalds Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir forseti Alþingis sl. föstudag lögin í Perlunni þar sem þau bæði voru viðstödd opnun sýningarinnar Íslandsperlur. Hér skipti miklu að engar tafir yrðu á enda nálægt upphafi veiða og á meðfylgjandi mynd má sjá forseta Alþingis staðfesta lögin fyrir sitt leyti með undirritun sinni.
Reglugerð ráðherra tekur mið af hinni ágætu reynslu sem hlaust af strandveiðum síðasta sumar. Svæðamörkum milli svæða A og B hefur verið breytt á þann hátt að þau liggja nú um Súðavíkurhrepp og Strandabyggð, en önnur svæðamörk eru óbreytt. Hlutfallsleg skipting aflaheimilda eftir mánuðum er:
|
maí |
júní |
júlí |
ágúst |
samtals |
---|---|---|---|---|---|
Svæði A |
25% |
30% |
30% |
15% |
100% |
Svæði B |
25% |
30% |
30% |
15% |
100% |
Svæði C |
25% |
30% |
30% |
15% |
100% |
Svæði D |
40% |
35% |
15% |
10% |
100% |
Aflaheimildir skv. reglugerðinni skiptast á fjögur landsvæði með eftirfarandi hætti:
A. Eyja- og Miklaholtshreppur - Súðavíkurhreppur. Í hlut þess koma alls 1.996 tonn sem skiptast á þann veg að heimilt er að veiða allt að 499 tonn í maí, 599 tonn í júní, 599 tonn í júlí og 299 tonn í ágúst.
B. Strandabyggð - Grýtubakkahreppur. Í hlut þess koma alls 1.420 tonn sem skiptast á þann veg að heimilt er að veiða allt að 355 tonn í maí, 426 tonn í júní, 426 tonn í júlí og 213 tonn í ágúst.
C. Þingeyjarsveit - Djúpavogshreppur. Í hlut þess koma alls 1.537 tonn sem skiptast á þann veg að heimilt er að veiða allt að 384 tonn í maí, 461 tonn í júní, 461 tonn í júlí og 231 tonn í ágúst.
D. Sveitarfélagið Hornafjörður - Borgarbyggð. Í hlut þess koma alls 1.047 tonn sem skiptast á þann veg að heimilt er að veiða allt að 419 tonn í maí, 366 tonn í júní, 157 tonn í júlí og 105 tonn í ágúst.
Það er von sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jóns Bjarnasonar, að reglugerð þessari verði vel tekið, því fyrir liggur að strandveiðar hafa sannað gildi sitt. Kostir þeirra eru margvíslegir líkt og úttekt Háskólaseturs Vestfjarða og meistaraprófsritgerð Gísla H. Halldórssonar við Háskóla Íslands hafa staðfest.
Reglugerð um strandveiðar 2009/2010