Kynning í Noregi á nýsköpun og vöruþróun Íslendinga
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra hélt til Noregs í síðustu viku ásamt sendinefnd skipaðri fulltrúum frá níu íslenskum fyrirtækjum, sem öll vinna markvisst að nýsköpun í rekstri sínum. Markmið ferðarinnar var að kynna nýsköpun og vöruþróun Íslendinga á sviði orku- og upplýsingatækni, ferðamennsku og vistvænnar atvinnuþróunar. Fyrirtækin sem tóku þátt eru:
- Sæbýli. Vinnur að því að setja upp fiskeldi sem nýtir afgangsvarma frá Reykjanesvirkjun.
- Gagarín. Margmiðlunarfyrirtæki.
- Prentsmiðjan Oddi. Sérhæfir sig í umhverfisvænum umbúðum fyrir sjávarútveg.
- Beitir. Framleiðir búnað til nota við línuveiðar sem skilar verðmætari fiski.
- Gogoyoko. Fyrirtækið markaðssetur tónlist á vefnum beint frá listamönnunum.
- Já. Áhersla á nýjar lausnir við markaðssetningu og leit á vefnum.
- Projekt. Markaðssetning og umbúðahönnun.
- Marorka. Framleiðir og selur orkustjórnunarkerfi fyrir skip.
- Risk Medical Solutions. Vinnur lyf úr lýsisafurðum.
Íslenska sendinefndin tók þátt í ráðstefnunni Gulltaggen þar sem fjallað var um nýjungar í gagnvirkum samskiptum og upplýsingamiðlun. Fulltrúar fyrirtækjanna tóku þátt í vinnufundum, fyrirlestrum og almennri tengslamyndun ásamt því að fyrirtækið Gagarín stóð fyrir vinnustofu þar sem m.a. var kynnt starfsemi fyrirtækisins.
Iðnaðarráðherra hélt jafnframt erindi á ráðstefnunni Sustainable and Rewarding Innovation, sem skipulögð var af Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni og DnB NOR. Frumkvöðullinn Richard Branson og norski ráðherran Trond Giske voru einnig meðal þátttakenda. Í erindi ráðherra kom m.a. fram að í nýsköpunarstefnu ríkisstjórnarinnar sé lögð áhersla á að til staðar sé hvetjandi umhverfi til nýsköpunar og þróunar.
Átti fund með Richard Branson
Í kjölfar ráðstefnunnar áttu Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra og Richard Branson, stofnandi Virgin samsteypunnar, góðan fund þar sem iðnaðarráðherra ítrekaði boð sitt um heimsókn til Íslands en í erindi sínu á ráðstefnunni bauð ráðherra Richard Branson til Íslands á komandi sumri. Eins og ráðherra sagði í erindi sínu: „ Ég vil nota þetta tækifæri til að bjóða þér, hr. Branson, til Íslands í sumar. Ekki eingöngu vegna áhuga þíns á flugfélögum heldur einnig til að kynna þér hvernig mjög svo breytilegt landslag Íslands getur aukið sköpunargleðina í Virgin Galactic verkefninu sem er annars mjög spennandi verkefni. Árin 1965 og 1967 valdi NASA tiltölulega ung og gróf hraunsvæði á Íslandi og íslenska hálendiseyðimörk til undirbúnings og þjálfunar fyrir geimfarana sem áttu að ganga á tunglinu í fyrsta sinn. Nasa horfði helst til Öskju þegar verið var að skipuleggja ferðir í jarðfræðilegu tilliti, staður sem þekktur er fyrir sprengigos. Hvað væri meira við hæfi í undirbúningi fyrir framtíðar ævintýri, ferðalög út í geim, en að feta í fótspor brautryðjenda og undirbúa tunglgöngu á Íslandi“
Virgin Galactic, geimfyrirtæki Richard Branson hyggst bjóða upp á farþegaflug út í geim á komandi árum.
Reykjavík 3. maí 2010