Nr. 29/2010 - Atvinnuátak í sjávarútvegi og landbúnaði- 70 fjölbreytileg störf
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur ákveðið að bregðast við miklum skorti á sumarstörfum og skapa í samvinnu við stofnanir sínar allt að 70 sumarstörf. Haft var samband við Hafrannsóknastofnunina, Veiðimálastofnun, Fiskistofu, Matís og Rannsóknasjóð til að auka verðmæti sjávarfangs og þess óskað að hugað verði að ráðningu sumarfólks í sumar. Er við það miðað að Verkefnasjóður sjávarútvegsins veiti stofnunum fé til að standa straum af kostnaði vegna sumarstarfanna. Ráðuneytið hefur einnig haft samband við Matvælastofnun sem mun skoða málið í samstarfi við atvinnuleysistryggingasjóð, en þau verkefni tengjast hreinsun gamalla girðinga. Áætlað er að hvert starf standi í allt að tvo mánuði í sumar.
Verkefnið er tvíþætt:
Annars vegar er gert ráð fyrir að Verkefnasjóður sjávarútvegsins veiti styrk til fyrirtækja sem geti þá ráðið nýtt fólk til starfa í afmörkuð verkefni. Þá er einnig gert ráð fyrir að fólk sem ekki hefur vinnu í sumar geti sótt um styrk í afmörkuð verkefni í samvinnu við fyrirtæki og stofnanir. Kröfur til verkefnanna eru að þau hafi með einum eða öðrum hætti jákvæð áhrif á aukið verðmæti sjávarfangs. Átakið er tilvalið fyrir fyrirtæki sem þurfa á starfsmanni að halda tímabundið til að vinna að nýsköpun og þróun. Einnig gæti fyrirtæki nýtt sér sérfræðiþekkingu sumarstarfsfólks til sérstakra verkefna sem efla og styrkja starfsemi fyrirtækisins.
Hins vegar munu stofnanir ráðuneytisins ráða til sín sumarstarfsfólk til tiltekinna rannsókna, nýsköpunar og eftirlitsverkefna. Fiskistofa mun ráða fimm starfsmenn, Hafrannsóknastofnunin sjö til níu, Veiðimálastofnun fimm til sex og Matís fjórtán til sextán. Meðal verkefna hjá stofnunum ráðuneytisins eru (þessi upptalning er hvergi nærri tæmandi):
- Verkefni tengd fiskeldi
- Eftirlit með strandveiðum og úrvinnsla mála vegna strandveiða
- Aðstoð við gerð nýs kerfis fyrir vigtar- og ráðstöfunarskýrslur
- Brottkastsrannsóknir
- Gerð verkferla og vinnulýsinga í gæðahandbók
- Rannsóknir á samkeppni flundru og bleikju í sjávarlónum
- Rannsóknir á vistfræði sjóbleikju, sæsteinsugu, flundru og lax.
- Landnámssaga lax á Íslandi
- Arðsemismat á mismunandi leiðum til að auka nýtingu og verðmætasköpun
- Hönnun á fræðsluvef fyrir almenning
- Kortlagning stöðu sjávarútvegs
- Söfnun og samantekt á gögnum fyrir matvælaöryggi
- Hönnun og þróun heimasíðu um næringarinnihald á íslenskum mat
- Aðstoð við skýrslugerð um stöðu smábáta á Íslandi
- Úttekt á gagnaskráningu við löndun fiskafla til útflutnings
- Úttekt á möguleikum Íslendinga varðandi umhverfismál og umhverfismerkingar í sjávarútvegi
- Vinnsla á brjósksykrum úr sæbjúgum
- Úttekt á mörkuðum og framleiðslu í gróðurhúsum á Íslandi sem kæmi til greina í samkeppni við erlenda markaði
- Rannsóknir á tengslum bakteríuflóru og afkomu lúðulirfa í eldi
- Áhrif gossins í Eyjafjallajökli á örveruflóru sjávar undan suðurströnd Íslands
- Æxlunarfæri leturhumars við Íslandsstrendur
- Aukning afkomu þorsklirfa í eldi og gæði lirfa
- Söfnun og úrvinnsla sýna tengd veiðum á uppsjávarfiskum
- Söfnun magasýna á makrílslóðum
- Stafræn ljósmyndun botnþörunga
- Kortlagning búsvæða
- Sumarafleysingar hjá Hafrannsóknastofnuninni á Akureyri, Ísafirði og í Vestmannaeyjum
- Flokkun myndbandaefnis
- Síldarrannóknir
Gangi þetta eftir munu sjötíu mikilvæg sumarstörf verða til. Störfin kalla á fjölbreytilegan bakgrunn og verða staðsett víða um land.
Ráðuneytið hefur einnig haft samband við Framleiðnisjóð Landbúnaðarins. Sjóðurinn hefur ákveðið að fara í átak við að fjölga sumarstörfum sem hafa augljósa tengingu við landbúnað og verja til þess allt að 10 milljónum króna.