Nr. 30/2010 - Reglur um aðstoð Bjargráðasjóðs vegna elgossins í Eyjafjallajökli
Samráðshópur sem Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði eftir að gos hófst í Eyjafjallajökli, hélt fund í fyrra dag og fór yfir stöðu og horfur á öskufallssvæðinu. Ákveðið var að Bændasamtök Íslands og Búnaðarsamband Suðurlands mundu setja saman teymi héraðsráðunauta af landinu til þess að fara á alla bæi á öskufallssvæðinu, ræða við bændur og meta með þeim aðstæður og þörf fyrir aðstoð vegna fóðuröflunar og beitar í vor og sumar. Starf þetta verður skipulagt í samráði við ráðuneytisstjóra sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins sem veitir samráðshóp ráðuneytisins forystu. Úttekt þessi er einnig mikilvægur liður í mati á umfangi tjóns og hvaða aðgerða unnt er að grípa til vegna gossins í nútíð og framtíð.
Bætur fyrir fjárhagslegt tjón eru greiddar samkvæmt úttekt og mati héraðsráðunauta eða annarra trúnaðarmanna Bjargráðasjóðs og framlögðum reikningum, staðfestum af héraðsráðunautum eða öðrum trúnaðarmönnum Bjargráðasjóðs. Við mat á tjóni skal m.a. tekið tillit til ástands ræktarlands eins og það var áður en tjónsatburður varð, eftir því sem kostur er. Áður en framkvæmdir eru hafnar skal leitað til héraðsráðunauta eða annarra trúnaðarmanna Bjargráðasjóðs sem meta þörf fyrir framkvæmdir á hverjum stað, ásamt því að taka mið af magntölum sem til ráðstöfunar eru.
Bjargráðsjóður bætir fjárhagslegt tjón sem hlýst vegna:
a. Hreinsunar á framburði á ræktarlandi vegna vatnsflóða.
b. Hreinsunar á túnvegum vegna vatnsflóða og/eða öskufalls.
c. Hreinsunar skurða vegna vatnsflóða og/eða öskufalls.
d. Eyðileggingar eða skemmda á túngirðingum vegna vatnsflóða.
e. Eyðileggingar á ræktarlandi vegna vatnsflóða og/eða öskufalls.
f. Endurræktunar túna vegna vatnsflóða og/eða öskufalls.
g. Uppskerurýrnunar á ræktarlandi vegna vatnsflóða og/eða öskufalls.
h. Kostnaðar sem hlýst af búfjárflutningum af hamfarasvæðinu og framfærslu þess á nýjum stað.
i. Tjóns á búfé og afurðum búfjár.
Frekari upplýsingar um aðgerðir samráðshóps vegna eldgossins í Eyjafjallajökli veitir Sigurgeir Þorgeirsson ráðuneytisstjóri.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur nú staðfest reglur Bjargráðasjóðs um aðstoð vegna tjóns af völdum eldgossins og er þær að finna hér fyrir neðan.
Reglur Bjargráðasjóðs um aðstoð vegna tjóns af völdum eldgossins