Rýmka á heimild til notkunar þjóðfánans við markaðssetningu
Forsætisráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið. Ætlunin er að rýmka heimild til að nota þjóðfánann við markaðssetningu á íslenskri framleiðslu frá því sem verið hefur, með því að veita almenna heimild til slíkrar notkunar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Í framsöguræðu sinni á Alþingi sagði Jóhanna Sigurðardóttir að ætla mætti að notkun fánans í þessum tilvikum geti verið til þess fallin að efla atvinnulíf og efnahag landsmanna og verka sem jákvætt skref í endurreisn á íslensku efnahagslífi. „Í þessu sambandi má líta til framkvæmdar í Danmörku en þar hefur danski fáninn um langt skeið verið notaður í markaðssetningu á dönskum vörum án mikilla takmarkana. Hefur notkun fánans í þessum tilgangi haft jákvæða þýðingu fyrir danska framleiðslu, svo sem í landbúnaði, og verið ákveðinn mælikvarði á gæði. [...] Er það von mín að sú breyting sem hér er lögð til á íslensku fánalögunum nái sama markmiði og að skilyrði um íslenskan uppruna og virðing fyrir fánanum séu til þess fallin að vera hvatning fyrir framleiðendur um að nota fánann íslenskum vörum og framleiðslu til framdráttar.“