Eftirfylgni vegna úttekta á sjálfsmatsaðferðum grunnskóla á tímabilinu 2008 og 2009
Sveitarstjórnir og skólaskrifstofur
Reykjavík 14. maí 2010
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur nú lokið annarri umferð úttekta á sjálfsmatsaðferðum í grunnskólum sem staðið hefur yfir síðan í byrjun árs 2007, sjá skýrslur á slóðinni: http://www.menntamalaraduneyti.is/mat_uttektir//nr/3411.
Samkvæmt niðurstöðum úttektanna 2007-2009 hlýtur einungis um 50% grunnskóla niðurstöðuna fullnægjandi eða fullnægjandi að hluta fyrir bæði sjálfsmatsaðferð og framkvæmd við sjálfsmat. 50% skóla eða 85 skólar uppfylltu hvorki viðmið ráðuneytisins um sjálfsmatsaðferðir né framkvæmd sjálfsmats þó fjórtán ár séu liðin frá gildistöku grunnskólalaga þar sem kveðið var á um að allir grunnskólar skyldu innleiða sjálfsmatsaðferðir til að meta eigið starf. Í þessu sambandi minnir ráðuneytið á eftirlitsskyldu sveitarfélaga með skólahaldi, sbr. 36. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla.
Eftirfylgni í kjölfar úttekta ráðuneytisins á sjálfsmatsaðferðum grunnskóla árið 2007 og á fyrri hluta árs 2008 fólst í ráðgjöf til þeirra skóla sem styst voru komnir í innleiðingu sjálfsmatsaðferða. Nú hyggst ráðuneytið gera slíkt hið sama fyrir skóla sem voru með ófullnægjandi heildarniðurstöður í úttektum sem fram fóru seinni hluta árs 2008 og árið 2009. Skólar sem þiggja slíka ráðgjöf skuldbinda sig til þátttöku í verkefninu skólaárið 2010-2011.
Fyrirkomulag verður þannig að fulltrúar grunnskóla í sama landshluta mæta saman á fundi með ráðgjafa tvisvar á skólaárinu og skila jafnframt einu verkefni.
Ráðgjöfin mun skiptast í þrennt:
- Boðað er til fundar að hausti þar sem ráðgjafi mun fjalla um sjálfsmat skóla og veita ráðgjöf m.a. með hliðsjón af þeim gögnum sem ráðuneytinu bárust eftir að úttektunum lauk. Gert er ráð fyrir að á fundinn mæti tveir til fimm fulltrúar frá hverjum skóla, þar af einn stjórnandi. Sérstök áhersla verður lög á matsferlið, gagnaöflun og gerð matsáætlana.
- Um mánuði eftir fyrsta fund skulu skólarnir senda matsáætlanir til ráðgjafa sem fer yfir þær og sendir til baka með athugasemdum.
- Fulltrúar skólanna koma aftur á fund með ráðgjafa að vori. Fyrir fundinn þarf gagnaöflun vegna sjálfsmats vetrarins að vera langt komin og skólarnir farnir að huga að framsetningu matsins, niðurstöðum og gerð umbótaáætlana en ráðgjafi mun m.a. fjalla um þessa þætti á fundinum.
Ráðgjafi verður Sigríður Sigurðardóttir matsfræðingur hjá Ísmati ehf. Hún er grunnskólakennari að mennt, með meistarapróf í uppeldis- og menntunarfræðum með sérstaka áherslu á matsfræði og leggur nú stund á doktorsnám við HÍ í menntunarfræðum með áherslu á sjálfsmat grunnskóla.
Ráðgjöfin verður skólunum að kostnaðarlausu, fyrir utan ferðakostnað ef einhver er.
Eftirfarandi eru upplýsingar um fundarstaði og fundartíma:
Búðardalur, fundur 24. ágúst kl. 13:00-17:00 og 13. apríl kl. 13:00-17:00.
Ísafjörður, fundur 25. ágúst kl. 13.00-17.00 og 12. apríl kl. 13:00-17:00.
Patreksfjörður , fundur 26. ágúst kl.13.00-17.00 og 11. apríl kl. 13:00-17:00.
Kirkjubæjarklaustur, fundur 31. ágúst 13:00-17:00 og 7. apríl 13:00-17:00.
Akureyri, fundur 2. september 13:00-17:00 og 24. mars 13:00-17:00.
Blönduós, fundur 6. september 13:00-17:00 og 4. apríl 13:00-17:00.
Borgarnes, fundur 7. september 13:00-17:00 og 5. apríl 13:00-17:00.
Egilsstaðir, fundur 9. september 13:00-17:00 og 29. mars 13:00-17:00.
Hafnarfjörður, fundur 15. september kl. 13:00-17:00 og 23. mars kl. 13:00-17:00.
Skólastjórar eru vinsamlega beðnir að láta ráðuneytið vita hvort þeir hyggist taka þátt í verkefninu, hvaða fundarstað þeir velja og hvað margir munu mæta fyrir hönd skólans fyrir 2. júní nk. með því að senda tölvupóst á netföngin: [email protected] og/eða [email protected]. Þeir skólastjórar sem með samþykki sveitarstjórnar ætla ekki að taka þátt eru beðnir að gera ráðuneytinu grein fyrir ákvörðun sinni fyrir 2. júní nk.