Iðnaðarráðherra afhenti heiðursverðlaun Orkubóndans 2010
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra afhenti þremur frumkvöðlum sérstök heiðursverðlaun Orkubóndans 2010 í dag. Námskeiðið Orkubóndinn er samstarfsverkefni Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Orkustofnunar, ÍSOR, iðnaðarráðuneytisins, Mannvits, Verkís, atvinnuþróunarfélaga og sveitarfélaga. Á námskeiðinu er fjallað á aðgengilegan hátt um leiðir til að virkja læki eða ár, jarðhita, vindorku, sólarorku eða jafnvel fjóshauginn.
Námskeiðið Orkubóndinn hefur verið haldið á átta stöðum á landinu í vetur og stefnir í að heildarfjöldi þátttakenda verði um 800. Á Orkubóndanámskeiðinu á Hótel Sögu í Reykjavík 11. og 12. maí eru nú yfir hundrað þátttakendur. Þeir voru viðstaddir hátíðlega athöfn síðdegis þriðjudaginn 11. maí þegar Þorsteinn Ingi Sigfússon framkvæmdastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands kynnti þrjá heiðursverðlaunahafa Orkubóndans 2010 sem tóku við verðlaunagripum úr hendi iðnaðarráðherra.
Heiðursverðlaun
Sjálfs heiðursverðlunin hlaut Ólafur Eggertsson, bóndi að Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum. Verðlaunin hlýtur Ólafur fyrir alhliða störf að virkjunarmálum, bæði vatnsorku og jarðhita auk þess að verða brautryðjandi í kornrækt og fyrir að hafa náð framúrskarandi árangri í ræktun á orkujurtinni repju þar sem uppskeran á hans búi er 30% meiri en á viðmiðunarstöðum í Norður Evrópu og Norðurlöndum. Ólafur er þriðji ættliður sem rekur búið á Þorvaldseyri og stendur nú frammi fyrir náttúruöflunum í sinni hrikalegustu mynd. Þrátt fyrir yfirvofandi hamfarir náttúrunnar vegna goss í Eyjafjallajökli er Ólafur staðráðinn í því að halda áfram repjuræktinni sem gefur mikla möguleika fyrir bændur í formi olíu, fóðurmjöls og hálms.
Hverflasmíðaverðlaun
Hverflasmíðaverðlaun orkubóndans 2010 hlaut Eiður Jónsson frá Árteigi en saga túrbínusmíði út með Kinnarfjöllum í Þingeyjarsýslu nær aftur um röska hálfa öld. Jón Sigurgeirsson í Árteigi hóf smíði á rafstöðvum fyrir 1950, en um var að ræða litlar rafstöðvar með 12 eða 24 volta jafnstraumsrafala sem voru settar í fjölmarga bæjarlæki í Þingeyjarsýslu. Um 1950 byggði Jón sína fyrstu alvöru rafstöð fyrir Granastaðabæina, en svo kallast bæjarþyrpingin út með Kinnarfjöllum sem samanstendur af Granastöðum, Ártúni, Árteigi I og II og Fitjum. Eiður frá Árteigi er fæddur hóf vinnu við vatnsaflsvirkjanir aðeins 23 ára gamall eftir að hafa lokið prófi í rafvirkjun. Átta árum síðar kom bróðir hans Arngrímur til starfa við verkefnin, lærður vélvirki. Samvinna hefur verið með þeim bræðrum og Árna S. Sigurðssyni hjá Verkfræðistofu Norðurlands. Efnistök og tækni Árteigsfeðga hefur verið notuð mjög víða og fjöldi virkjana sem þeir hafa komið að nálgast nú eitt hundrað. Stærsta virkjunin er 715kW.
Bjartasta vonin
Bjarni Malmquist Jónsson frá Jaðri í Suðursveit var heiðraður sem bjartasta vonin. Hann er útskrifaður rafiðnfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Hann virkjaði síðastliðið sumar bæjarlækinn á bújörð foreldra sinna að Jaðri í Suðursveit. Sú virkjun ásamt varmadælu sér að mestu um upphitun íbúðarhúsa að Jaðri. Bjarni byggði virkjunina til að sanna fyrir móður sinni að hægt að væri að virkja fyrir bæinn, og vel var það hægt og á hagstæðan hátt. Bjarni var einnig á síðastliðnu ári einn sigurvegara í hinni árlegu hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema við Háskóla Íslands ásamt því að vera á forsetalista HR. Þá má geta þess að Bjarni er líka öflugur frjálsíþróttamaður og varð íslandsmeistari í sjöþraut á síðasta ári.