Samningar um hjúkrunarrými og málefni fatlaðra undirritaðir á Akureyri
Árni Páll Árnason, félags– og tryggingamálaráðherra, og Hermann Jón Tómasson, bæjarstjóri á Akureyri, undirrituðu síðastliðinn þriðjudag tvo nýja samninga ríkisvaldsins og Akureyrarkaupstaðar. Annars vegar er um að ræða samning um fjármögnun og uppbyggingu 45 hjúkrunarrýma á Akureyri sem koma í stað rýma í Kjarnalundi og hins vegar var undirritaður samningur um málefni fatlaðra fyrir árið 2010 en stefnt er að yfirfærslu málaflokksins til sveitarfélagsins árið 2011.
Í samningnum um 45 hjúkrunarrými er kveðið á um að Akureyrarbær láti hanna og byggja nýtt hjúkrunarheimili en af hálfu félags- og tryggingamálaráðuneytisins fylgist Framkvæmdasýsla ríkisins með framkvæmdinni. Hámarksstærð rýmis er 75 m2 fyrir einstakling eða samtals 3.375 m2. Áætlaður heildarkostnaður er um 1,6 miljarðar kr.
Akureyrarbæ stendur til boða allt að 100% lán frá Íbúðalánasjóði til 40 ára fyrir framkvæmdinni. Félags- og tryggingamálaráðuneytið mun greiða Akureyrarbæ leigu næstu 40 árin fyrir u.þ.b. 85% af framkvæmda- og fjármagnskostnaði.
Samningurinn um málefni fatlaðra er fyrir árið 2010 og er framhald fyrri samninga við félags– og tryggingaráðuneytið um verkefnið. Samningsfjárhæð er 977,2 m.kr. Á árinu 2010 verður lokið við að meta þarfir þeirra sem nota búsetuþjónustu og eru 18 ára og eldri skv. stöðluðu matkerfi (SIS).