Hoppa yfir valmynd
17. maí 2010 Matvælaráðuneytið

Nr. 31/2010 - Reglugerðir um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti á greiðslumarki mjólkur á lögbýlum

Í ályktunum á aðalfundi Landssambands kúabænda frá því í vetur kemur fram eindreginn vilji til þess að dregið verði úr kostnaði greinarinnar vegna viðskipta með greiðslumark og þar mælt með að öll viðskipti með greiðslumark fari fram á kvótamarkaði:

“Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Sögu 26. og 27. mars 2010, felur stjórn LK að vinna að því í samstarfi við BÍ og ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðar að öll viðskipti með greiðslumark í mjólk, sem færist milli lögbýla fari í gegnum sameiginlegan tilboðsmarkað sem taki til starfa eigi síðar en kvótaárið 2011.”

Hér má nefna til upplýsinga að verð á greiðslumarki var 1. maí 2005 389 kr./ltr., 1. maí 2006 313 kr./ltr., 1. maí 2007 286 kr./ltr., 1. maí 2008 340 kr./ltr., 1. maí 2009 254 kr./ltr. og 1. maí 2010 232 kr./ltr. sbr. : http://www.bondi.is/pages/204

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, hefur nú undirritað reglugerð um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti á greiðslumarki mjólkur á lögbýlum (kvótamarkað) og einnig reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 648/2009, um greiðslumark mjólkur á lögbýlum og greiðslur til bænda frá 1. september 2009 til 31. desember 2010. Reglugerðir þessar eru settar samkvæmt heimild í lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Reglugerðirnar öðlast gildi við birtingu. Frá og með gildistöku þeirra skulu öll aðilaskipti með greiðslumark mjólkur fara eftir ákvæðum þessara reglugerða.

Markmið breytinganna er að fjárhagslegur stuðningur við greinina nýtist sem best til að lækka vöruverð til neytenda og að greinin geti þróast þannig að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið í hópi mjólkurframleiðenda og unnt sé að nýta framleiðsluaðstöðuna með eðlilegum hætti. Breytingunum er nánar ætlað að stuðla að réttlátari skiptingu ávinnings heildarinnar (seljenda kaupenda og neytenda) af viðskiptunum t.d. með því að auka gagnsæi, ná meira jafnvægi í verðum og jafna stöðu kaupenda og seljenda hvað varðar upplýsingar um markað fyrir greiðslumark. Jafnframt er verið að koma tímabundið í veg fyrir að ráðstöfum greiðslumarks frá einstökum býlum í fjárhagsvanda eigi sér stað, án þess að áhrif á heildar stefnumótum liggi fyrir.

Helstu nýmæli eru að Matvælastofnun er falið að starfrækja kvótamarkað sem haldinn skal tvisvar á ári; þann 1. júní og þann 1. desember ár hvert og í fyrsta skipti 1. desember 2010. Markaðurinn er settur upp að danskri fyrirmynd þar sem að eingöngu geta orðið viðskipti á s.k. jafnvægisverði. Við opnun tilboða skráir Matvælastofnun magn og verð á hverju tilboði um kaup eða sölu. Við flokkun tilboða um sölu skal þeim raðað upp eftir hækkandi verði við hvert innfært tilboð. Kauptilboðum skal raðað upp eftir lækkandi verði við hvert innfært tilboð á sama hátt. Jafnvægisverð er það verð sem myndast þegar framboðið magn er jafnt og eftirspurt magn eða lægsta verð, sem jafnvægismagn getur verið selt og keypt á. Jafnvægismagn er það magn greiðslumarks, sem boðið fram getur gengið kaupum og sölum á markaðnum hverju sinni. Greiðslumarki sem boðið er til sölu á hærra verði en jafnvægisverði skal vísað frá markaði og á sama hátt kauptilboðum sem eru lægri en jafnvægisverð.

Í ályktunum aðalfundar Landssambands kúabænda frá því í vetur  segir einnig:


“Ræða þarf sérstaklega um stærðarþróun í greininni. Hvaða áhrif hefur mjög ör þróun haft, m.a. á verð greiðslumarks? Er hægt að ná markmiði um lækkun framleiðslukostnaðar samhliða takmörkun á stærð einstakra rekstrareininga? Á að hækka framleiðsluskylduna?

 

Þá telur fundurinn koma til greina að setja því mörk hversu mikið greiðslumark má vera í eigu sama aðila og á sama lögbýli þó ekki undir 1% af heildargreiðslumarki.”

Að mati Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eru þessar tillögur allrar athygli verðar og telur hann að nú verði að nýta tímann og taka til efnislegrar umræðu þær tímabæru spurningar um hámarks bústærð og önnur framleiðsluskilyrði sem Landssamband kúabænda hefur sett fram í ályktunum sínum, en þessa umræðu verði hins vegar að taka fyrir allan landbúnað á Íslandi með hliðsjón af fæðuöryggi þjóðarinnar og að íslensk landbúnaðarframleiðsla sé stunduð með sem sjálfbærustum hætti þegar til framtíðar er litið.

 

Reglugerð um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur á lögbýlum.

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 648/2009, um greiðslumark mjólkur á lögbýlum og greiðslur til bænda frá 1. september 2009 til 31. desember 2010.

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta