Hoppa yfir valmynd
17. maí 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Um fíkniefnaleit í framhaldsskólum með atbeina lögreglu

Til framhaldsskóla
 
Í tilefni af fíkniefnaleit í framhaldsskólum með atbeina lögreglu, sem dæmi eru um að framkvæmd hafi verið í nokkrum framhaldsskólum landsins, hefur mennta- og menningarmálaráðherra ákveðið að tjá sig með almennum hætti um slík  mál  á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitshlutverks síns samkvæmt 3. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla.  Umfjöllun þessi takmarkast við þann þátt slíkra mála er lýtur að lögbundnu forvarnarstarfi í framhaldsskólum á grundvelli laga um framhaldsskóla og reglna sem settar eru samkvæmt þeim lögum.  Lagagrundvöllur  lögregluaðgerða  sem þessara er því ekki til umfjöllunar hér, en embætti umboðsmanns Alþingis hefur hins vegar haft það álitaefni til sérstakrar athugunar.

Framhaldsskóli, þar sem bæði lögráða og ólögráða einstaklingar stunda nám, sinnir ekki aðeins fræðsluhlutverki heldur fer einnig með ákveðið uppeldishlutverk gagnvart nemendum sínum og er vinnustaður þeirra.  Samkvæmt lögum um framhaldsskóla eru lagðar ríkar skyldur á skólastjórnendur í framhaldsskólum að sinna forvarnarstarfi í skólum á ábyrgan og öflugan hátt.  Framhaldsskólum er þannig ætlað, sbr. 36. gr. laganna, að hvetja nemendur sína til heilbrigðs lífernis og heilsuræktar og halda uppi heilbrigðu skólastarfi.  Skal hver framhaldsskóli setja sér stefnu um forvarnir, sem birt skal opinberlega.  Þá skulu skólarnir gera grein fyrir því með reglubundnum hætti hvernig forvarnarstarfi er háttað.  Sú skylda er jafnframt áréttuð í almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla, þar sem kveðið er á um að öll meðferð og neysla áfengis og annarra vímuefna er stranglega bönnuð í húsakynnum skóla, og að framhaldsskólar skulu móta stefnu í áfengis- og vímuefnavörnum og birta í skólanámskrám sínum.  Framhaldsskólar skulu einnig setja sér skólareglur, á grundvelli 33. gr. laganna, sem er meðal annars ætlað að kveða á um framangreint bann og viðurlög við brotum á því. 

Samkvæmt framansögðu er lögð rík áhersla á lögbundið forvarnarstarf í framhaldsskólum og mikilvægi þess fyrir heilbrigt skólastarf og félagslíf nemenda.  Eiga nemendur rétt á því að geta stundað nám og tekið þátt í félagsstarfi á vegum skólanna í trausti þess að hið fortakslausa bann við vímugjöfum sé virt og því sé framfylgt.  Eru framhaldsskólar því ekki aðeins vinnustaður nemenda heldur jafnframt ákveðinn griðastaður þeirra í þessum skilningi.  Forvarnarstarfi í framhaldsskólum skal haldið uppi með ábyrgum, öflugum og reglubundnum hætti.  Almenn fíkniefnaleit í framhaldsskólum, sem framkvæmd er með atbeina lögreglu, fíkniefnahundar notaðir við leitina, útgönguleiðum skóla lokað eða þær vaktaðar og líkamsleit framkvæmd á nemendum getur hins vegar ekki talist hluti af almennu forvarnarstarfi framhaldsskóla.

Aðgerðir af því tagi þurfa að byggjast á rökstuddum grun og skýru tilefni og er nauðsyn þeirra háð mati skólastjórnenda og lögreglu hverju sinni.    Þurfa slíkar aðgerðir að samræmast ákvæðum 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og ákvæðum laga um meðferð sakamála.  Ber því að gæta meðalhófs og sýna tilhlýðilega varkárni við beitingu almennra aðgerða af þessu tagi.  Skal ekki gripið til slíkra aðgerða nema lagagrundvöllur þeirra sé traustur og ákveðin mál komi upp innan skólanna sem bregðast þurfi við með slíkum hætti eða aðgerðir sem þessar grundvallist á rökstuddum grun og skýru tilefni, að undangengnu vönduðu mati á nauðsyn þeirra hverju sinni.  Við það mat ber meðal annars að hafa í huga velferð og öryggi nemenda, hvernig það sé best tryggt að teknu tilliti til meðalhófssjónarmiða, og því að framhaldsskólar eru, eins og áður segir, vinnu- og griðastaður nemenda sinna.  Fíkniefnaleit sem framkvæmd er með framangreindum hætti er óneitanlega harkaleg aðgerð gegn almennum nemendum sem þar sækja nám og er jafnvel ekki kunnugt um tilefni svo viðamikillar og íþyngjandi leitar.  Auk þeirra áhrifa sem aðgerðir af þessum toga kunna að hafa á hinn almenna nemanda, þá er óvíst hvort þær séu til þess fallnar að ná þeim árangri sem að er stefnt – ekki síst ef þær byggjast ekki á rökstuddum grun og skýru tilefni, heldur fara aðeins fram sem hluti af almennu forvarnarstarfi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu þykir í ljósi umfjöllunar um ofangreint mál rétt að koma framangreindum sjónarmiðum á framfæri við framhaldsskóla og stjórnendur þeirra.

 Katrín Jakobsdóttir

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta