21 – Hindranir á leið til upplýsingatækniþjóðfélagsins
Upplýsingatæknigeirinn skapar 5% af vergri þjóðarframleiðslu (GDP) Evrópusambandsins með veltu sem nemur 660 milljörðum evra á ári auk geysimikilla áhrifa á framleiðni í öðrum geirum. Þetta kemur fram í netritinu Europolitics í grein sem byggist á drögum að skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Engu að síður horfist geirinn í augu við miklar hindranir. Sjö atriði eru sérstaklega tiltekin:
- margskiptur (piecemeal) markaður samansettur úr mörkuðum aðildarríkjanna 27
- ósamræmi milli tækni og staðla
- vaxandi glæpir tengdir netnotkun
- lítil fjárfesting í háhraðanetum
- lítil netfærni
- lítil notkun nettækni í tengslum við tiltekin vandamál eins og öldrun og hlýnun andrúmsloftsins
- litlar rannsóknir og lítil nýsköpun.
Það er því ekki undrunarefni að stærstu uppfinningarnar á netinu á síðustu árum hafa ekki komið frá Evrópu og eru nefnd dæmi eins og Google, eBay, Amazon og Facebook. Þá er lögð áhersla á hve flókin viðskipti á netinu eru og hve lítil hvatning er fyrir símafyrirtæki, svo dæmi séu tekin, að þróa lausnir fyrir Evrópu í heild sinni og fyrir neytendur að þróa eftirspurn. Niðurstaðan er því sú að grundvallarbreytingu þurfi að gera til að færa Evrópu betur inn í fjarskiptaöldina.
Þær aðgerðir sem þarf eru m.a. að mati framkvæmdastjórnarinnar:
- Að taka á viðskiptahömlum í vefverslun og aðlaga stjórn á höfundarrétti að tækniþróun. Neytendur geta til að mynda keypt geisladiska í hvaða búð sem er en ekki hvar sem er á netinu þar sem viðskiptaleyfi eru bundin við einstök ríki. Þetta gæti skýrt mikið ólöglegt niðurhal. Framkæmdastjórnin hefur í hyggju að leggja fram tilskipun sem auðveldar stjórnun höfundaréttar í fjölmiðlun árið 2012 en auk þess mun hún leggja fram hugmyndir að verslunarleyfum sem gilda innan Evrópusambandsins alls.
- Framkvæmdastjórnin mun beita sér fyrir samræmingu staðla
- Framkvæmdastjórnin mun grípa til aðgerðar til að koma í veg fyrir glæpi
- Þá mun framkvæmdastjórnin grípa til ýmissa aðgerða til að efla þrópun háhraða internets í Evrópusambandinu.
Þetta má lesa í 3978-hefti Europolitics