Nefnd um breytingar á viðlaga- og tryggingakerfinu
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að skipa nefnd til að gera tillögur að breytingum á viðeigandi lögum og reglugerðum sem tryggi að öll meiriháttar verðmæti falli innan viðlaga- og tryggingakerfis. Þannig fái tjónþolar í náttúruhamförum bætur samkvæmt föstum verklagsreglum og ríkissjóður standi ekki frammi fyrir óvæntum og stórfelldum útgjöldum eins og raunin hefur verið. Nefndin skal meðal annars fara yfir skýrslu verkefnisstjóra þjónustumiðstöðvar vegna jarðskjálfta á Suðurlandi í maí 2008 og ábendingar í henni um hvað megi betur fara í viðbrögðum, verkferlum og aðgerðum vegna náttúruhamfara.
Forsætisráðuneytið fer með forystu í nefndinni enda viðfangsefnið á verksviða nokkurra ráðuneyta. Í nefndina verða skipaðir fulltrúar viðeigandi ráðuneyta, sveitarfélaga og almannavarna auk þess sem leitað verður samráðs og upplýsinga hjá Viðlagatryggingu, tryggingafélögum og fleirum eftir atvikum.
Frá sumri 2008 hefur starfað nefnd á vegum efnahags- og viðskiptaráðherra við að endurskoða lög um viðlagatryggingu. Þar sem niðurstöður þeirrar nefndar kunna að hafa grundvallaráhrif á verkefni nýju nefndarinnar leggur ríkisstjórnin áherslu á að sú fyrrnefnda hraði störfum sínum eins og kostur er og skili tillögu að frumvarpi sem fyrst.