Engin rannsóknarleyfi á óröskuðum svæðum
Fréttatilkynning nr 7/2010
Að gefnu tilefni vill iðnaðarráðuneytið taka fram að hjá Orkustofnun, sem gefur út rannsóknarleyfi til orkurannsókna fyrir hönd ráðuneytisins, liggur ekki fyrir beiðni um rannsóknarleyfi á Hrunamannaafrétti. Hins vegar hafa sveitarstjórn Hrunamannahrepps og Hitaveita Flúða leyfi til rannsókna á jarðhitasvæði í landi jarðarinnar Kópsvatns sem er í Hrunamannahreppi. Engin stefnubreyting hefur orðið í iðnaðarráðuneytinu frá því að ráðherra lýsti yfir því í júlí 2007 að rannsóknarleyfi yrðu ekki gefin út á óröskuðum svæðum fyrr en niðurstaða rammaáætlunar um verndun og nýtingu lægi fyrir.
Sumarið 2007 vísað þáverandi iðnaðarráðherra frá rannsóknarleyfum á fjórum tilteknum svæðum þ.a.m. í Kerlingafjöllum. Auk þess vísaði ráðherra frá umsóknum um rannsóknarleyfi á óröskuðum svæðum. Tekið var sérstaklega fram að ekki yrði tekin afstaða til umsókna um rannsóknarleyfi á framangreindum svæðum fyrr en niðurstaða rammaáætlunar lægi fyrir.
Í samstarfsyfirlýsingu núverandi stjórnarflokka er lögð rík áhersla á að ljúka gerð rammaáætlunar um verndun og nýtingu náttúrusvæða sem allra fyrst og að hún fái lögformlega stöðu í stjórnkerfinu.
Reykjavík 20. Maí 2010