Hoppa yfir valmynd
21. maí 2010 Forsætisráðuneytið

Sumarfundur forsætisráðherra Norðurlanda

Forsætisráðherrar Norðurlandanna
Forsætisráðherrar Norðurlandanna

Forsætisráðherra sótti í dag árlegan sumarfund forsætisráðherra Norðurlandanna sem haldinn var í Marienborg í Danmörku.

Á fundinum var rætt um samkeppnishæfni Norðurlandanna á sviði grænnar orku og frekara norrænt samstarf á því sviði, í framhaldi af norrænu hnattvæðingarþingi sem haldið var í gær. Norðurlöndin starfa saman að fjölmörgum verkefnum á vettvangi norrænu ráðherranefndarinnar sem tengjast vistvænni orku og samstarfi um rannsóknir og tækni.

Alþjóðlega fjármálakreppan var einnig til umræðu, sérstaklega áhrif hennar á nágrannaríki innan Evrópu og evrusvæðið. Forsætisráðherra gerði sérstaka grein fyrr stöðu mála á Íslandi, bæði hvað varðar efnahagslega uppbyggingu og einnig það uppgjör og ákvarðanir sem framundan eru eftir útkomu skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Norrænu forsætisráðherrarnir lýstu samkennd með Íslandi í þessum erfiðu aðstæðum og töldu markverðan árangur hafa náðst. Ennfremur var rætt um stuðningsaðgerðir ESB, nýjan sjóð sambandsins sem ætlað er að skapa stöðugleika á evrusvæðinu og samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Forsætisráðherra þakkaði norrænu ríkjunum sérstaklega fyrir þann stuðning og samstöðu sem þau sýndu Íslandi í tengslum við endurskoðun áætlunar sjóðsins fyrir Ísland í apríl s.l. og lagði áherslu á að tvíhliða málefni eins og Icesave mætti ekki standa í vegi fyrir eðlilegu ferli á alþjóðavettvangi, hvorki hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum né í aðildarumsókn Íslands að ESB.

Þá ræddu forsætisráðherrarnir um stöðu alþjóðlegra viðræðna í loftslagsmálum og áframhaldandi samningaumleitanir um alþjóðlegar skuldbindingar eftir Kaupmannahafnarfundinn 2009.

Á vef Norrænu ráðherranefndarinnar má sjá myndir frá fundinum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta