Ársverkum í landbúnaði, fiskveiðum og fiskiðnaði hefur fjölgað um 10% frá frá 1. ársfjórðungi 2008 til sama tímabils 2010.
Hagstofa Íslands heldur utan um hald- og greinargóð gögn um vinnumarkaðinn hér á landi. Gögnum er safnað allt árið um kring og er árinu skipt upp í fjögur 13 vikna tímabil. Úrtakið er 4.030 einstaklingar og er hver þátttakandi spurður um stöðu sína í viðmiðunarviku rannsóknarinnar.
Vinnumarkaðsrannsóknin er úrtakskönnun. Því eru niðurstöðurnar háðar óvissu sem er því meiri sem sundurliðun talnaefnis er meiri. Úrtaksrannsóknir hafa ávallt ákveðna óvissu í för með sér þar sem úrtakið er ekki nákvæm eftirmynd af heildarskránni eða þýðinu.
Við skoðun á gögnum Hagstofunnar kemur í ljós við samanburð á fyrsta ársfjórðungi 2009 og sama tímabils 2010 að fjölgun ársverka í landbúnaði er 28% og við fiskveiðar 20,5%. Séu þessar greinar teknar saman má sjá að ársverkum hefur fjölgað um 27% milli ára.
Sé rýnt í gögnin og t.d. borinn saman 3. ársfjórðungur 2008 og sama tímabil 2009 með tilliti til fiskveiða má sjá að ársverkum fjölgaði um 500. Hér ræður miklu að þá var í fyrsta sinn leyft að stunda strandveiðar, en í fyrra stunduðu 554 bátar þessar veiðar. Hér er því um hreina viðbót að ræða og yfirlýst markmið sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að greiða fyrir nýliðun í greininni og eflina atvinnu í sjávarbyggðum virðast hafa heppnast.
Ef borinn er saman fyrsti ársfjórðungur 2008 og fyrsti ársfjórðungur 2010 má með sama hætti sjá að þessar greinar hafa haldið sínu þrátt fyrir efnahagshrunið. Þannig hefur ársverkum í landbúnaði, fiskveiðum og fiskiðnaði fjölgað um 1200 eða rúmlega 10% á fyrsta ársfjórðungi 2010 frá sama tíma 2008.