Nýir aðilar munu stunda makrílveiðar í sumar
Við setningu reglna um makrílveiðar þetta ár lagði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sérstaka áherslu á að skapa svigrúm fyrir nýjar veiðiaðferðir, sem líklegar eru til að skapa grundvöll fyrir fjölbreyttri vinnslu á verðmætum afurðum og auka atvinnu í sjávarbyggðum og veita fleirum aðgang að veiðunum en þeim sem veitt hafa síðustu árin. Gert er ráð fyrir 130 þúsund lesta afla. Þessum viðmiðunarafla var ráðstafað til skipa með þrennskonar hætti:
- 112 þúsund lestum til skipa, skv. veiðileyfum, sem stunduðu makrílveiðar í flottroll eða nót á árunum 2007, 2008 og 2009.
- 3 þúsund lestum til skipa sem fyrirhuga veiðar á línu eða handfæri eða gildrur skv. leyfi Fiskistofu.
- 15 þúsund lestum til skipa, sem hvorki falla undir flokk 1 eða 2 en sótt hafa um leyfi til makrílveiða eigi síðar en 30. apríl.
Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu voru 72 umsóknir í 15.000 tonna pottinn:
- 41 umsókn í stærstu stærðinni og fá þau skip kost á 229 tonnum hvert
- 19 umsóknir í miðstærðinni og fá þau skip kost á 195 tonnum hvert
- 12 umsóknir í minnstu stærðinni og fá þau skip kost á 160 tonnum hvert
Síðan hafa 50 umsóknir þegar borist um leyfi til veiða úr 3.000 tonna pottinum.
Sé litið til hins mikla áhuga sem birtist í umsóknum um veiðileyfi er ljóst að nokkur nýliðun mun verða í hópi úgerðaraðila á makríl og líkur eru á að umtalsverð verðmæti munu skapast við vinnslu aflans.