Hoppa yfir valmynd
25. maí 2010 Forsætisráðuneytið

Staða helstu atvinnuskapandi aðgerða og fleiri verkefna samkvæmt stöðugleikasáttmálanum

Í tilefni af yfirlýsingum formannafundar ASI, um meint aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum hefur forsætisráðuneytið tekið saman meðfylgjandi yfirlit yfir helstu verkefni til atvinnusköpunar sem unnið hefur verið að að undanförnu. Forsætisráðuneytið vísar því á bug tilhæfulausum staðfhæfingum um aðgerðarleysi í atvinnumálum.


Atvinnuátak ríkisstjórnarinnar

Í sérstöku atvinnuátaki ríkisstjórnarinnar voru auglýst laus til umsóknar 856 störf. Um er að ræða tímabundin störf sem standa námsmönnum og atvinnuleitendum til boða og nemur ráðningartímabil þeirra allt frá 6 vikum upp í 6 mánuði.  Stefnt er að því að ljúka ráðningum í flest störfin fyrir lok mánaðarins.


Framlag til Nýsköpunarsjóðs námsmanna tæplega fimmfaldað

Framlag til Nýsköpunarsjóðs námsmanna verður tæplega fimmfaldað þannig að sjóðurinn mun samtals hafa 120 milljónir króna til ráðstöfunar og þannig megi tryggja yfir 400 námsmönnum sumarvinnu við rannsóknar- og þróunarstörf


Ný fangelsisbygging

Vinnuhópur dómsmálaráðuneytis hefur unnið að frumathugun á byggingu fangelsis sem vænst er að geti farið í útboð á næstu þremur mánuðum. Gert er ráð fyrir að með útboði verði leitað að aðila sem væri tilbúinn að byggja og leigja húsnæði fyrir þessa starfsemi.


Háskólasjúkrahús

Málið er í eðilegum farvegi. Samkvæmt mannaflagreiningu á byggingu nýs Landsspítala munu 30 manns starfa við framkvæmdina á þessu ári, 2010, 80 manns árið 2011, 359 manns árið 2012, 756 manns á árunum 2013 og 2014, 636 árið 2015 og 23 árið 2016.


Uppbygging á fjölsóttum ferðamannastöðum

Frumvarp er í vinnslu um Framkvæmdasjóð ferðaþjónustunnar sem byggir á umhverfisgjaldi á ferðamenn, á bilinu 500 til 700 millj. kr. Sjóðnum er ætlað að standa undir uppbyggingu aðstöðu fyrir ferðamenn á fjölsóttum ferðamannastöðum, þjóðgörðum og friðlýstum svæðum.


Hjúkrunarrými

Undirritaðir hafa verið samningar við fimm af níu sveitarfélögum um byggingu hjúkrunarrýma. Alls er um að ræða 360 rými sem kalla á 1200 ársverk víða um land.
Viðhaldsverkefni. Ákveðið hefur verið að verja auknu fjármagni til viðhalds opinberra bygginga um land allt og áætlar að verja til þess 9-10 milljörðum á næstu þremur árum.   Það mun skapa um 600 störf.  


Orkuframkvæmdir

Fjárfestingar sem tengjast orkufrekum iðnaði og raforkukerfinu eru áætlaðar alls um 400 milljarðar kr. til ársins 2017, þar af um 265 milljarðar kr. í ár og næstu þrjú ár. Samantekið er staða þessara verkefna eftirfarandi:

  • Bygging Búðarhálsvirkjunar og stækkun álversins í Straumsvík

Landsvirkjun hefur nýlega tekið ákvörðun um að bjóða út undirbúningsframkvæmdir við Búðarhálsvirkjun. Kostnaðaráætlun vegna þessara framkvæmda er um 600-800 millj. kr. og gert er ráð fyrir 145 störfum við framkvæmdirnar. Þegar ákvörðun framhald framkvæmda liggur fyrir er áætluð fjárfesting við virkjunina um kr 20 milljarðar á fjórum árum og fjöldi ársverka er áætlaður um 500 ársverk. Tinto Alcan um sölu á orku frá Búðarhálsvirkjunar til stækkunnar á álverinu í Straumsvík.

  • Bygging  álvers í Helguvík

Svo virðist sem nokkur kraftur hafi komist í Helguvíkurverkefnið að undanförnu og HS Orka, Magma og Norðurál vinni að því að klára mál þannig að hægt sé að hefja framkvæmdir við fyrsta áfanga álvers í Helguvík í sumar.

  • Orkuverkefni á Norðurlandi

Iðnaðarráðherra hefur undirritað viljayfirlýsingu við þrjú sveitarfélög í Þingeyjarsýslu um aðgerðir til að stuðla að atvinnuuppbygginu sem byggir á nýtingu jarðvarma á svæðinu.  Markmið þeirrar vinnu sem fara mun fram í samræmi við yfirlýsinguna miðar að því að skapa þær aðstæður fyrir 1. október 2010 að hægt verði að ganga til samninga um uppbyggingu orkufreks iðnaðar í Þingeyjarsýslum.

  • Bygging gagnavers Verne Holding í Reykjanesbæ

Fjárfestingarsamningur og frumvarp til heimildarlaga vegna byggingar gagnavers Verne Holding ehf. er til umfjöllunar á Alþingi og hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Þá hafa stjórnvöld til skoðunar reglur um meðferð virðisaukaskatts vegna innflutnings á tækjabúnaði til  gagnavera á Íslandi, og þjónustusölu gagnavera, með það að markmiði að þær reglur sem hér gilda verði sambærilegar við það sem gildir innan Evrópusambandsins.

Verkefni á sviði samgöngumála

Viðræður hafa verið í gangi varðandi þátttöku lífeyrissjóðanna í vegaframkvæmdum, þar á meðal eru Suðurlandsvegur, Vesturlandsvegur og Vaðlaheiðargöng. Tæknilegur undirbúningur er víða langt kominn.
Undirbúningur samgöngumiðstöðvar í Reykjavík og stækkun flugstöðvar á Akureyrarflugvelli er einnig langt á veg kominn.

Ýmsar aðrar aðgerðir í atvinnumálum samkvæmt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar 6. mars 2009

Aðgerðir í atvinnumálum samkvæmt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar sem lögð var fram 6. mars 2009 hafa leitt til sköpunar um 2.392 starfa eða ríflega 56% af upphaflegum markmiðum í mars 2010 og eru verkefni í byggingariðnaði, nýsköpun og sjávarútvegi ásamt öðrum enn í framkvæmd.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta