Hoppa yfir valmynd
26. maí 2010 Matvælaráðuneytið

Á öskufallsslóð í Mýrdal og undir Eyjafjöllum

Flóð í Svaðbælisá maí 2010
Flóð í Svaðbælisá maí 2010

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, og formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Atli Gíslason, fóru um öskufallssvæði frá Eyjafjallajökli þann 19. maí 2010. Tilgangur ferðarinnar var m.a. að kynna sér af eigin raun aðstæður íbúa og meta umfang nauðsynlegra aðgerða vegna landbúnaðar. Þetta er fjórða ferð ráðherra um svæðið síðan gosið hófst.

Sérstaklega var í ferðinni leitast við að skoða aðstæður sauðfjárbænda nú við lok sauðburðar.

Í ferðinni var m.a. komið að Þorvaldseyri þar sem eðjuflóð hafði komið niður Svaðbælisá og fyllt árfarveg svo upp úr flóði yfir varnargarða við bæinn. Flóðið í gær kom til vegna yfirborðsösku úr hlíðum Eyjafjallajökuls en til þess að aurfljóð myndist þarf aska að innihalda 20% - 30% vatn og líkist það helst fljótandi steypu. Fundað var með starfsmönnum vegagerðarinnar vegna mögulegra aðgerða til eflingar varnargörðum.

Næst var Sólheimahjáleiga heimsótt en þar býr Einar Þorsteinsson fyrrum búnaðar­ráðunautur ásamt konu sinni Eyrúnu Sæmundsdóttur. Voru sjálfboðaliðar frá Íslenskri erfðagreiningu að störfum við hreinsun. Ábúendur voru rigningunni fegnir því hún hreinsaði loftið og batt öskuna, en um leið var aðstoð sjálfboðaliðanna mikilsverð því hin blauta gjóska er að mörgu leyti verri en hin þurra. Þetta er vegna þess að hún er þyngri og veldur meira álagi á þök og svo loðir hún mjög mikið saman og festist þá t.d. við rafmagns- og símalínur.

Gjóska þarf þó ekki alltaf að hafa neikvæð áhrif á gróður. Dæmi eru til um rótarlangar jurtir sem dafna vel þó að gjóska hafi þakið yfirborð jarðvegs. Það getur að vísu tekið nokkurn tíma fyrir jurtirnar að ná upp úr gjóskunni. Einnig getur verið að dökkt yfirborð gjósku valdi aukinni hitamyndun og því verði betri skilyrði fyrir jurtir til að vaxa. Þá geta einnig verið ákveðin efnasambönd í gjóskunni sem virkar sem næring fyrir þær.

Í þjónustumiðstöð almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í Vík í Mýrdal var farið yfir skipulag hins umfangsmikla hreinsunarstarf sem Guðmundur Ingi Ingason og björgunarsveitin Víkverji stýra. Í þjónustumiðstöðinni er líka haldið utan um starfsemi sjálfboðaliða sem fá hádegismat í félagsheimilinu Leikskálum.

Áhrif öskufallsins voru könnuð allt austur í Álftaver m.a. með það að markmiði að kanna þörf fyrir aðstoð vegna fóðuröflunar og beitar nú í vor og sumar. Jón Bjarnason hefur nú staðfest reglur Bjargráðasjóðs um aðstoð vegna tjóns af völdum eldgossins en sjóðurinn bætir fjárhagslegt tjón sem hlýst vegna:

a.    Hreinsunar á framburði á ræktarlandi vegna vatnsflóða.

b.      Hreinsunar á túnvegum vegna vatnsflóða og/eða öskufalls.

c.      Hreinsunar skurða vegna vatnsflóða og/eða öskufalls.

d.      Eyðileggingar eða skemmda á túngirðingum vegna vatnsflóða.

e.      Eyðileggingar á ræktarlandi vegna vatnsflóða og/eða öskufalls.

f.       Endurræktunar túna vegna vatnsflóða og/eða öskufalls.

g.      Uppskerurýrnunar á ræktarlandi vegna vatnsflóða og/eða öskufalls.

h.      Kostnaðar sem hlýst af búfjárflutningum af hamfarasvæðinu og framfærslu þess á nýjum stað.

i.        Tjóns á búfé og afurðum búfjár.

Ferð ráherrans og nefndarformannsins var þannig mikilvægur liður í að meta umfang tjónsins og hvaða aðgerða unnt er að grípa til vegna gossins í nútíð og framtíð.

kort öskuslóðir

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta