Ávarp umhverfisráðherra á framtíðarþingi Landverndar
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra ávarpaði gesti á framtíðarþingi Landverndar, sem haldið var í framhaldi af aðalfundi félagsins þann 26. maí 2010, með eftirfarandi orðum.
Kæru félagar og velunnarar Landverndar
Öll gerum við okkur grein fyrir mikilvægi frjálsra félagasamtaka í lýðræðisríkjum ekki síst á sviði umhverfis- og náttúruverndarmála. Þau eru mikilvæg til að halda uppi gagnrýnni umræðu um athafnir stjórnvalda og atvinnurekenda og til að hafa áhrif á ákvarðanatöku þeirra. Þetta mikilvæga hlutverk félagasamtaka birtist m.a. í íslenskri löggjöf sbr. kæruheimild samtaka samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og þá kæruheimild sem almenningi verður tryggður með fullgildingu Árósarsamningsins sem verður vonandi lokið á þessu ári.
Um leið og umhverfis- og náttúruverndarsamtök veita stjórnvöldum og atvinnurekendum aðhald eru þau að skapa ákveðið rými fyrir umræðu um umhverfis- og náttúruverndarmál, umræðu sem er nauðsynleg til að málaflokkurinn fái þá stöðu sem hann þarf í almennri og pólitískri umræðu. Það er með þessu aðhaldi félagasamtaka sem umræðan verður oftar en ekki breiðari og upplýstari þar sem athugasemdir félagasamtaka til að mynda í stjórnsýslukærum eru gjarnan á þann veg að ýmsar spurningar vakna og nýjar upplýsingar koma fram. Aðkoma félagasamtaka hvetur þannig til opinnar umræðu sem er nauðsynleg öllum lýðræðissamfélögum og eykur jafnframt gagnsæi og rekjanleika ákvarðana stjórnvalda.
En gagnrýnisskoðun og aðhald félagasamtaka nær ekki einungis til stjórnvalda og þeirra sem með völdin fara. Öllum félagasamtökum er nauðsynlegt að horfa með gagnrýnum augum á hlutverk sitt og skoða reglulega með opnum hug áherslur sínar og markmið og hvort ástæða sé til að huga að nýjum leiðum inn í framtíðina. Framtíðarþing sem hefst hér á eftir er einmitt sá vettvangur sem ætti að gefa félagsmönnum og velunnurum Landverndar tækifæri til endurskoðunar og verður þessi vettvangur örugglega til þess að nýjar hugmyndir vakna sem koma til með að leggja grunn að öflugari og markvissari stefnu fyrir Landvernd til framtíðar.
Ég dreg engan dul á það - að það er mér ákveðið umhugsunarefni hversu lítil þátttaka ungs fólks virðist vera í umhverfis- og náttúruverndarsamtökum og hve lítil nýliðun virðist vera innan þessara samtaka. Þetta er sérstakt áhyggjuefni þar sem starf umhverfis- og náttúruverndarsamtaka snýst jú fyrst og fremst um hagsmuni framtíðarinnar – hagsmuni komandi kynslóða. Ég er sannfærð um að það er mikill áhugi meðal ungs fólks um umhverfis- og náttúruverndarmál en spurningin er kannski hvernig hægt er að efla þátttöku þeirra í frjálsum félagasamtökum á þessu sviði.
Ég varð þess sjálf áskynja á síðastliðnu umhverfisþingi að ungt fólk hefur skoðanir á umhverfismálum og hefur margt fram að færa í þeim efnum. Eins og sum ykkar kannski muna þá lagði ég sérstaka áherslu á þátttöku ungs fólks á umhverfisþingi síðastliðið haust til að stuðla að umræðu milli kynslóðanna um framtíðarþróun Íslands. Tvö ungmenni fluttu ávarp í upphafi þingsins sem vakti mikla athygli og hafði greinilega áhrif á „heimskaffiumræðuna“ sem fór fram á þinginu. Þá var efnt til sérstakrar málstofu fyrir ungt fólk samhliða þinginu þar sem m.a. var leitað svara við spurningunni: „Hvernig getur Ísland orðið sjálfbært?”. Niðurstöðu þeirrar vinnu mun birtast mjög fljótlega í skýrslunni „Velferð til framtíðar“ sem verið er að leggja lokahönd á en ég ætla að deila með ykkur nokkrum atriðum sem komu fram á málstofu unga fólksins.
Ein þeirra spurningin sem var rædd meðal unga fólksins var :
Af hverju eru umhverfismál lítið eða ekkert rædd meðal ungs fólks?
Sem dæmi um niðurstöðu þessarar umræðu má nefna þessi svör.:
· Ungt fólk er lítið frætt um umhverfismál bæði utan sem innan skóla.
· Fræðsla til ungs fólks er oft á alltof fræðilegum nótum.
· Margt eldra fólk telur önnur mál mikilvægari en umhverfismál og telur því nóg að fræða yngstu krakkana um umhverfismál. En það erum við sem munum vera í þeirra hlutverki eftir 20 ár og þurfum því að vera búin að fá fræðslu um þessi mál. Fólk áttar sig kannski ekki nógu vel á því.
Þessi dæmi um svör sem fram komu á málstofu unga fólksins á umhverfisþinginu verða vonandi til þess að kalla fram hugmyndir hér á eftir um hvernig hægt sé að efla þátttöku ungs fólks í náttúru- og umhverfisverndarstarfi.
Við þurfum á þeirra hugmyndum og kröftum að halda í þeim fjölmörgu verkefnum sem framundan eru.
Græn fána verkefnið – flaggskip Landverndar hefur svo sannanlega fest sig í sessi í leik- og grunnskóla en það þarf með einhverjum hætti að viðhalda og auka áhuga unga fólksins eftir að grunnskóla líkur.
Sem umhverfisráðherra hef ég lagt á það áherslu að eiga lýðræðislegt samráð við almenning og frjáls félagasamtök sem og að minna stöðugt á þá heildarmynd sem við verðum að horfa til í umræðunni um umhverfis- og náttúruverndarmál með hagsmuni framtíðarinnar að leiðarljósi. Ég finn fyrir vaxandi meðbyr frá almenningi sem í sífellt auknu mæli lætur sig varða umhverfis- og náttúruverndarmál og ég finn sameiginlegan hljómgrunn milli pólitískra áherslna minna og þeirra áherslna sem til að mynda samtök ykkar, Landvernd, standa fyrir. Ég horfi því með tilhlökkun til niðurstöðu þeirrar umræðu sem fer fram hér á eftir sem ég er sannfærð um að verður til þess að styrkja enn frekar Landvernd sem frjáls félagasamtök og mikilvægan þátt samtakanna í umhverfis- og náttúruverndarmálum á Íslandi.
Gangi ykkur vel.