Formleg athugasemd Eftirlitsstofnunar EFTA
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sendi í dag frá sér formlega athugasemd (e. letter of formal notice) þar sem fram kemur það álit stofnunarinnar að íslenskum stjórnvöldum hafi borið skylda til þess að setja upp innstæðutryggingar sem tryggi innstæður að því lágmarki sem tilskipun um innlánatryggingakerfi nr. 94/19/EB kveður á um, eða 20.000 evrur.
Helstu rök ESA í athugasemd sinni eru þau að í tilskipuninni hafi í raun falist skylda að búa svo um hnúta við innleiðingu hennar að innstæðueigendum væri ávallt tryggt það lágmark sem kveðið er á um í tilskipuninni.
Í lok fréttatilkynningar sem ESA birti fyrr í dag tekur Per Sanderud forseti ESA fram að stofnunin muni láta framgang málsins ráðast af því hvort samningar við Breta og Hollendinga muni nást. Íslensk stjórnvöld hafa með fulltingi Alþingis allt frá upphafi sýnt vilja til að leysa málið með samningum. Sú staða er óbreytt náist ásættanlegir samningar.
Íslensk stjórnvöld hafa tvo mánuði til að bregðast við athugasemdum ESA. Fallist ESA ekki á sjónarmið íslenskra stjórnvalda má gera ráð fyrir að stofnunin sendi frá sér rökstutt álit, en það getur verið undanfari málsmeðferðar fyrir EFTA-dómstólnum.
Meðfylgjandi er tengill á fréttatilkynningu ESA:
http://www.eftasurv.int/press--publications/press-releases/internal-market/nr/1254