Hoppa yfir valmynd
26. maí 2010 Utanríkisráðuneytið

Fyrsti friðargæsluliðinn til Jemen

Útvarpsmaðurinn Sveinn H. Guðmarsson er nýjasti liðsmaður Íslensku friðargæslunnar. Hann verður upplýsingafulltrúi Unicef, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í Jemen næstu sex mánuðina. Í Jemen eru staðbundin átök sem hafa hrakið fjölda fólks á vergang. Starf Sveins felst í að safna og miðla upplýsingum um ástandið í landinu, einkum um aðstæður barna sem eru á vergangi og njóta aðstoðar Barnahjálparinnar.

Jemen er eitt fátækasta ríki Mið-Austurlanda. Íbúar landsins eru um 23 milljónir. Sameinuðu þjóðirnar telja að áralöng átök í landinu hafi hrakið um 200 þúsund landsmenn á flótta í eigin landi. Stór hluti þeirra er á barnsaldri. Átökin í landinu eru staðbundin, að mestu utan höfuðborgarinnar, Sanaa, þar sem skrifstofur Barnahjálparinnar eru.

Yfirvöld í Jemen hafa einsett sér að bæta menntakerfi landsins og tryggja sem flestum börnum skólagöngu. Einkum er horft til hinna dreifðari byggða þar sem börn hefja vinnu snemma og skólaganga situr á hakanum. Stúlkur hafa orðið útundan í menntakerfinu - einungis rúmur helmingur þeirra sækir skóla. Eitt af forgangsverkefnum Barnahjálpar SÞ er að styðja við bakið á stjórnvöldum í mennta- og skólamálum. Áhersla er lögð á að fjölga stúlkum í barnaskólum um 20 til 30 prósent á ári. Barnahjálpin styður þá viðleitni, til dæmis með menntun kvenkyns kennara og útvegun námsgagna.

Íslenskir friðargæsluliðar, alls tíu manns, eru nú við störf í Afganistan, Jórdaníu, Palestínu, Serbíu, Bosníu og Líberíu. Nú bætist Jemen við, en Sveinn er fyrsti starfsmaður Íslensku friðargæslunnar sem þar starfar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta