Horfur í efnahagsmálum samkvæmt nýjustu spá OECD
Samkvæmt nýjasta yfirliti OECD um stöðu efnahagsmála á Íslandi hefur náðst töluverður árangur í að draga úr ójafnvægi í þjóðarbúskapnum. Jafnframt er bent á að sá árangur skapi góðan grunn fyrir efnahagsbata á seinni hluta ársins 2010 þótt töluverður halli sé enn í ríkisrekstri. Spá OECD gerir ráð fyrir að aukin einkaneysla ásamt fjárfestingu í orkufrekum iðnaði á næsta ári ýti einna helst undir efnahagsbatann. Spáin gerir einnig ráð fyrir samdrætti í ár upp á 2,2% en að hagvöxtur taki við sér á næsta ári og verði 2,3%.
Forsendan fyrir því að spáin gangi eftir er að stjórnvöld haldi áfram því aðhaldi í ríkisfjármálum sem þau hafa framfylgt fram til þessa. Einnig er nauðsynlegt að hagræða rekstur sveitarfélaga. Hvað varðar stefnu í peningamálum er mikilvægt samkvæmt OECD að halda gjaldmiðlinum stöðugum. Með því móti má endurskoða gjaldeyrishöftin þegar hagræðing í ríkisfjármálum er komin vel af stað, bankakerfið hefur að fullu veri endurreist og öflugum gjaldeyrisvaraforða hefur verið komið upp.