Hoppa yfir valmynd
26. maí 2010 Innviðaráðuneytið

Um álit reikningsskila- og upplýsinganefndar um færslu leigusamninga í ársreikninga

Vegna umfjöllunar um nýlegt álit reikningsskila- og upplýsinganefndar um færslu leigusamninga í ársreikninga vegna lóða í eigu sveitarfélaga óskar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið eftir að taka eftirfarandi fram:

Reikningsskila- og upplýsinganefnd, sem starfar á grundvelli reglugerðar nr. 944/2000 með síðari breytingum, hefur í síðustu tveimur álitum sínum fjallað um bókhaldslega og reikningsskilameðferð langtímaleigusamninga sveitarfélaga. Í fyrra áliti nefndarinnar er lagt til að sveitarfélög færi í efnahagsreikning alla leigusamninga vegna fasteigna og annarra mannvirkja til lengri tíma en þriggja ára. Í seinna álitinu er lagt til að sveitarfélög meti þær lóðir og lendur í eigu sveitarfélaga sem þau hafa leigutekjur af og færi til eignar í efnahagsreikningi eignasjóðs.

Álit nefndarinnar um rekstrarleigusamninga sveitarfélaga, nr. 1/2010

Reikningsskilanefnd hefur í allnokkurn tíma unnið að því að meta leiðir til að tryggja samræmda meðferð langtíma leiguskuldbindinga í bókhaldi og reikningsskilum sveitarfélaga. Nefndin hefur haft áhyggjur af því ósamræmi sem leitt hefur af þeirri framsetningu að skuldbindingar, sem stofnað er til vegna rekstrarleigusamninga um uppbyggingu og rekstur fasteigna, hafi verið færðar utan efnahagsreiknings en tilgreindar í skýringum. Hefðbundnar lántökur sveitarfélaga til fjárfestinga eru hins vegar færðar til skulda í efnahagsreikning. Með þessu hefur skapast ósamræmi sem gerir samanburð á milli sveitarfélaga eftir fjármögnunaraðferðum ómarkvissan. Nefndin hefur því talið mikilvægt að samræma þessa framsetningu og tryggja þannig að hún sé betur í samræmi við auglýsingu nefndarinnar nr. 460/2005 um meðhöndlun leigusamninga í bókhaldi og reikningsskilum sveitarfélaga.

Á málþingi nefndarinnar þann 19. nóvember 2009 voru þessi mál tekin til sérstakrar umræðu. Í framhaldi af málþinginu sendi nefndin erindi til sveitarfélaga þar sem tilkynnt var um að nefndin byggðist skerpa á þessum reglum um færslu stærri rekstrarleigusamninga til bæði eignar og skuldar. Í því sambandi var einnig vitnað til endurskoðunar Alþjóða reikningsskilanefndarinnar á IAS staðli 17 um mat á leigusamningum en endurskoðunin miðar að því að leigusamningar verði almennt færðir í bókhaldi fyrirtækja en ekki aðeins um þá getið í skýringum.

Afgreiðsla nefndarinnar á þessu álitaefni var kynnt í áliti sem hún sendi frá sér í mars síðastliðinn, nr. 1/2010. Með álitinu er lagt til að sveitarfélögin færi í efnahagsreikning sinn alla leigusamninga vegna fasteigna og annarra mannvirkja til lengri tíma en þriggja ára, enda séu þeir ekki uppsegjanlegir af hálfu sveitarfélagsins innan eins árs. “Á þetta jafnt við um rekstrarleigusamninga, fjármögnunarleigusamninga og aðra leigusamninga vegna fasteigna og annarra mannvirkja sem sveitarfélög nota í starfsemi sinni”, segir í álitinu. Þá var kveðið á um það að ef fjárhæð leigusamnings er óveruleg megi færa slíkan samning utan efnahags.

Álitið fól jafnframt í sér nánari leiðbeiningar til sveitarfélaga um framkvæmd útreikninga skuldbindinga til færslu í efnahagsreikning. Þannig kvað álitið á um það að leigðar eignir skuli færðar til eignar í efnahagsreikningi meðal varanlegra rekstrarfjármuna, en að skuldbindingar vegna leigusamninga skuli færðar til skuldar í efnahagsreikningi miðað við framreiknaðar eftirstöðvar þeirra.

Nefndin lagði til að sveitarfélögum verði skylt að fara með leiguskuldbindingar í samræmi við álitið frá og með ársreikningum 2010 en að sveitarfélögum verði heimilað að beita þessari reikningsskilaaðferð einnig vegna ársins 2009.

Álit nefndarinnar um leigusamninga vegna lóða, nr. 2/2010

Í framhaldi af fyrra áliti nefndarinnar tók hún til umfjöllunar færslu leigusamninga sem sveitarfélög gera vegna langtíma framleigu á lóðum og lendum. Í áliti sem hún gaf út í apríl síðastliðnum um þetta atriði komst nefndin að þeirri niðurstöðu að rétt væri af sveitarfélagi að meta þær lóðir og lendur í eigu sveitarfélagsins sem það hefur leigutekjur af og færa til eignar í efnahagsreikningi eignasjóðs. Lagt er til að lóðir skuli meta miðað við núvirði framtíðartekna sveitarfélags af lóðarleigu og að sama regla ætti að gilda um aðrar lendur í eigu sveitarfélags, enda liggi fyrir samningar um leigu þeirra til þriðja aðila.

Í greinargerð með þessari tillögu nefndarinnar var m.a. vísað í 2. mgr. 14. gr. laga um ársreikninga nr. 3/2006, en þar er kveðið á um að eign skuli færð í efnahagsreikning þegar líklegt er talið af henni fáist fjárhagslegur ávinningur í framtíðinni og virði hennar megi meta með áreiðanlegum hætti. Nefndin lagði í áliti sínu til að reglunni skyldi beitt við reikningsskil sveitarfélaga fyrir árið 2010 en að sveitarfélögum yrði heimilað að beita henni við reikningsskil ársins 2009. Í álitinu felast einnig leiðbeiningar um útreikning á virði leigusamninga af þessum toga..

Álitið var samþykkt í reikningsskila- og upplýsinganefnd með fjórum atkvæðum af fimm en annar fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga sat hjá. Í bókun sem hann lagði fram í nefndinni er greint frá ástæðum hjásetunnar en þar kemur meðal annars fram það sjónarmið að meiri tíma hefði þurft til að undirbúa álitið.

Umfjöllun ráðuneytisins

Ráðuneytið fagnar því frumkvæði sem reikningsskila- og upplýsinganefnd hefur sýnt með útgáfu ofangreindra álita; nefndin tekur mikilvæga afstöðu til álitaefna sem hafa verið til umræðu á vettvangi stjórnvalda og meðal sveitarstjórnarmanna um nokkurt skeið. Með þessu er betur tryggt en ella samræmi milli sveitarfélaga um meðferð leigusamninga svo og þau markmið sem fram koma í 58. gr. sveitarfélaga nr. 45/1998, með síðari breytingum, að reikningsskil sveitarfélaga eigi að gefa glögga mynd af rekstri og efnahag sveitarfélagsins í heild.

Ráðuneytið mun hér eftir sem hingað til vinna að því í samstarfi við nefndina, Samband íslenskra sveitarfélaga og Hagstofu Íslands, að tryggja að álitum nefndarinnar verði fylgt eftir.

Nánari upplýsingar um reikningsskila- og upplýsinganefnd sveitarfélaga er að finna á heimasíðu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, auk þess sem þar er hægt að lesa álit nefndarinnar.

 

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta