Hoppa yfir valmynd
1. júní 2010 Matvælaráðuneytið

Þjóðin býður heim á fimmtudaginn, einstakt þjóðarátak

Þjóðin býður heim
Þjóðin býður heim

Fréttatilkynning nr 10/2010
Fimmtudaginn 3. júní verður efnt til þjóðarátaks í tengslum við markasherferðina Inspired by Iceland sem ferðaþjónustan, ríkið, Reykjavíkurborg og Útflutningsráð efna til sameiginlega á erlendum vettvangi nú í byrjun sumars. Ætlunin er að virkja íslenskan almenning og fá fólk til þess að vekja jákvæða athygli á Íslandi undir heitinu Þjóðin býður heim.

Verkefni af þessu tagi eru fáheyrð og líklega ekki framkvæmanleg víða. Á Íslandi er á hinn bóginn hefð fyrir þjóðarsamstöðu gagnvart náttúruhamförum. Landsmenn fá nú kjörið tækifæri til þess að sýna samstöðu og leggja efnahagslegri uppbyggingu lið. Mikilvægt er að koma þeim skilaboðum á framfæri að landið sé opið og aðgengilegt, viðskipti gangi fyrir sig með eðlilegum hætti og einmitt nú sé rétti tíminn til þess að heimsækja land og þjóð.

  • Tilgangurinn með þjóðarátakinu er að fjölga ferðamönnum til Íslands, auka gjaldeyristekjur þjóðarbúsins og lágmarka þann skaða sem eldgosið í Eyjafjallajökli olli ferðaþjónustu og tengdum greinum.
  • Á fimmtudaginn á milli kl. 13 og 14  er fólk því eindregið hvatt til að senda glænýtt og skemmtilegt myndaband af síðunni www.inspiredbyiceland.istil fjölskyldu, vina, kunningja og viðskiptafélaga erlendis. Þeir sem ekki hafa tök á því á þeim tíma geta sent myndbandið á öðrum tímum dagsins eða hvenær sem er næstu vikurnar.
  • Þeir sem ekki hafa tök á að senda myndbandið milli 13 og 14 á fimmtudag geta að sjálfsögðu sent það hvenær sem er. Einnig hefur verið útbúinn tölvupóstur fyrir fyrirtæki sem vilja senda beint á sína póstlista – slíkan tölvupóst sem hægt er að senda beint úr eigin póstforritum er hægt að nálgast hjá forsvarsmönnum verkefnisins.
  • Hvatt verður til þess af hálfu ríkisstjórnarinnar að fyrirtæki og stofnanir gefi starfsfólki sínu svigrúm til að senda skilaboðin og slóðina á myndbandið á fimmudaginn.
  • Í myndbandinu fléttast saman glettnar svipmyndir og myndskeið frá mörgum fallegustu stöðum landsins. Myndbandið er til þess fallið að leiðrétta ranghugmyndir um ástandið hér á landi. Mikilvægt er að koma þeim skilaboðum á framfæri að landið sé opið og aðgengilegt, viðskipti gangi fyrir sig með eðlilegum hætti og þess vegna sé það rétti tíminn núna að heimsækja land og þjóð.
  • Til kynningar á verkefninu Þjóðin býður heim munu Kastljósið á RÚV og Stöð 2 (Ísland í dag) sýna myndbandið og útskýra hvernig standa á að þátttöku í átakinu. Auglýsingar verða birtar í útvarpi og í blöðum á morgun, miðvikudag, og á fimmtudag til leiðbeiningar og hvatningar
  • Sérstök netútsending á ensku verður frá Perlunní um þjóðarátakið „Þjóðin býður heim“ og Ísland sem áfangastað  frá kl. 13 til 14 á fimmtudaginn, þegar gert er ráð fyrir að átakið nái hámarki,  og verður þessi útsending  kynnt fyrir erlendum fjölmiðlum.
  • Í netútsendingunni koma meðal annars fram Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Björk, Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra og Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra, Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur, Andri Snær Magnason rithöfundur, Vigdís Finnbogadóttir, fyrrv. forseti, Svanhildur Konráðsdóttir, framkvæmdastjóri menningarsviðs Reykjavíkurborgar, Páll Óskar Hjalmtýsson söngvari, Kjartan Sveinsson úr Sigur Rós og sýnt verður fjölbreytt myndefni tengt Íslandi.
  • Gestgjafi netútsendingarinnar í Perlunni verður Þóra Arnórsdóttir fréttamaður;  leikstjóri og handritshöfundur er Kjartan Ragnarsson ásamt Sigtryggi Magnasyni. Tæknimál eru í höndum Kukls.

Nánari upplýsingar gefur Einar Karl Haraldsson í síma 840 6888


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta