Hoppa yfir valmynd
3. júní 2010 Matvælaráðuneytið

Orkuskipti í samgöngum:

 

Fréttatilkynning 3. júní 2010
Á ráðstefnu um visthæfar samgöngur sem haldin var í Háskólanum í Reykjavík í dag afhjúpaði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra nýtt merki áætlunar um orkuskipti í samgöngum. Áætlunin kallast „Græna orkan, Vistorka í samgöngum“ og er markmið hennar að byggja upp klasasamstarf þar sem ráðuneyti, stofnanir, sveitarfélög og fyrirtæki geta unnið saman að því sameiginlega markmiði að auka nýtingu á innlendu vistvænni orku.

Tilefni ráðstefnunnar er upphaf vinnu sem iðnaðarráðherra hefur hrundið af stað og skipun  nefndar um orkuskipti í samgöngum. Stefnt er að því að auka samvinnu fyrirtækja, sveitarfélaga og opinberra aðila á þessu sviði og að skapa nauðsynlegar forsendur til að gera orkuskipti í samgöngum að vænlegum kosti. Markmiðið er að efla atvinnuþróun og nýsköpun, hvetja til aukinna rannsókna og þekkingaruppbyggingar og að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum. 

Á ráðstefnunni í Háskólanum í Reykjavík kynntu aðilar sem tengjast visthæfum samgöngum verkefni sín og framtíðarsýn. Þar var meðal annars fjallað um breytingar á bílum með hefðbundnar vélar í rafbíla og um bifreiðar framtíðarinnar. Gerð grein fyrir stöðu þeirra verkefna sem unnið hefur verið að hér á landi á þessu sviði undanfarin ár eins og vetnisverkefni og metanverkefni og fjallað um lífdíeselframleiðslu á Íslandi, svo fátt eitt sé nefnt.

Í stjórnarsáttmála ríkistjórnarinnar kemur fram að markmiðið sé að draga úr notkun innflutts jarðefnaeldsneytis og auka hlut innlendrar orku. Mikið hefur unnist á undanförnum árum og er nú svo komið að um 1% bílaflota landsmanna er knúin innlendri orku. Með því klasasamstarfi sem nú er hafið er stefnt að því að stórauka þessa hlutdeild í náinni framtíð.

Merkið tákn endurnýjanlegra visthæfra orkukosta

Merki grænu orkunnar er hringur eða hjól sem er tákn þess sem endurnýjast. Form hjólsins sameinar mismunandi innlenda visthæfa orkukosti: Vindmylluspaðana eða túrbínuhjólið fyrir raforkuna og blómið fyrir lífdísel og metan. Þegar rýnt er í formið má líka sjá straumkast eða iðu auk þess sem hver pílári hringsins er gufubólstri og þannig tákn jarðvarmans.

Myndatexti: Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra afhjúpar hið nýja merki á rafbíl ráðuneytisins. Með henni á myndinni er Hólmfríður Sveinsdóttir formaður nefndar um orkuskipti í samgöngum

Nánari upplýsingar:

Hólmfríður Sveinsdóttir, form. nefndar um orkuskipti í samgöngum, s: 862-1104, [email protected]

Jón Björn Skúlason, verkefnisstjóri, s: 863-6510, [email protected] 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta