Hoppa yfir valmynd
9. júní 2010 Matvælaráðuneytið

Nr. 37/2010 - Vegna yfirlýsingar Landssambands íslenskra útvegsmanna um stjórnsýslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis við friðun sjö fjarða fyrir veiðum með dregnum veiðarfærum.

Við ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um friðun sjö fjarða fyrir dragnótaveiðum var í hvívetna reynt að leita meðalhófs og uppfylla kröfur um gagnsæja og hlutlæga stjórnsýslu. Áform stjórnvalda voru kynnt þann 15. janúar 2010 en þá var boðað með fréttatilkynningu, að í beinu samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar yrðu „kannaðar veiðar afkastamikilla skipa á grunnslóð og þær takmarkaðar frekar en nú er. Þannig mætti treysta grunnslóðir sem veiðisvæði smærri báta með umhverfisvænni veiði samhliða verndun sjávarbotnsins og lífríkisins alls á þessum hafsvæðum.“

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra óskaði þann 29. apríl 2010 eftir umsögnum um áform á grundvelli 8. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands um að takmarka veiðar með dragnót í sjö tilgreindum fjörðum. Sérfræðingar ráðuneytisins sátu fund með dragnótaveiðimönnum og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þann 11. maí 2010. Á þeim fundi var óskað eftir tillögum veiðimanna sem gætu orðið tilefni frekara samráðs vegna friðunaráformanna. Þann sama dag fór fram fundur með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í ráðuneytinu og var þar enn óskað eftir tillögum frá dragnótaveiðimönnum. Bærust slíkar tillögur yrði um þær fjallað málefnalega.

 

Engar tillögur bárust frá dragnótaveiðimönnum, sem höfnuðu friðunaráformum  ráðuneytisins. Í því ljósi þótti ekki sérstök ástæða til að kalla til fundar.

 

Ráðuneytið tók á móti fjölmörgum umsögnum og voru aðilar ýmist meðmæltir friðun eða alfarið á móti. Með ákvörðun ráðuneytisins fylgdi samantekt á þessum umsögnum. Því var öll stjórnsýsla vegna ákvörðunar ráðherra gagnsæ og hlutlæg.

 

Landssamband íslenskra útvegsmanna vísar til skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar um rannsóknir á áhrifum dragnótaveiða í Skagafirði, sem sýni litlar líkur á áhrifum dragnótaveiða á lífríki botnsins. Ráðuneytið telur þessa skýrslu allrar athygli verða, en metur að niðurstöður hennar hafi verið teknar úr samhengi og oftúlkaðar, sbr. fyrirvara höfunda í lokaorðum skýrslunnar sjálfrar. Ljóst er að áhrif dragnótar á botn eru umdeild og óviss, en fyrir liggur að sjálfsögðu að áhrif hennar eru til muna vægari en t.d. botntrolls.

 

Friðun hinna sjö fjarða fyrir dregnum veiðarfærum er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar eins og hún var kynnt með samstarfsyfirlýsingu fyrir ári síðan. Hér fyrst og fremst um að ræða stjórnun og skipulag nýtingar innfjarðasvæða.

 

Mat ráðuneytisins er að vönduð stjórnsýsla hafi verið í hávegum höfð og meðalhófs gætt við ákvarðanatöku vegna friðunar sjö fjarða fyrir dragnótaveiðum.

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta