Hoppa yfir valmynd
14. júní 2010 Matvælaráðuneytið

Strandveiðar

Eins og kunnug er hefur Alþingi samþykkt heimild til strandveiða til frambúðar en fyrirkomulag veiðanna er í meginatriðum það sama og í fyrra. Þannig er gert ráð fyrir að strandveiðar muni einkum takmarkast af þeim aflaheimildum sem ráðstafað er sérstaklega til veiðanna, eða allt að 6.000 lestum af óslægðum botnfiski í stað 3.995 lesta af þorski auk annarra tegunda líkt og var á síðasta ári.

Strandveiðar hófust í lok júní 2009 eftir að Alþingi hafði samþykkt ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 66/2009, um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Þessum lögum var ætlað að styrkja og örva atvinnustarfsemi í sjávarbyggðum. Markmiðið var jafnframt að ýta undir nýliðun í greininni og gefa fleirum en handhöfum kvóta möguleika á takmörkuðum veiðum.

Um 20% útgerðarmanna voru nýliðar á fyrsta ári veiðanna og að auki má búast við að margir nýliðar hafi verið í hópi þeirra 150 einstaklinga sem auk útgerðaraðila skipuðu áhafnir strandveiðibátanna.

Með veiðunum hefur náðst það markmið að hleypa lífi í minni sjávarbyggðir landsins. Þegar litið er yfir 20 helstu löndunarhafnir í strandveiðum það sem af er veiðunum kemur í ljós að 10 þeirra eru í bæjum með 1000 íbúa og færri og þar af eru sjö með 500 og færri. Aðeins ein af þessum stóru löndunarhöfnum eru á höfðuborgarsvæðinu. Þannig hafa markmið með eflingu sjávarbyggða með veiðunum náðst að því leyti að veiðarnar voru að mestu stundaðar fjarri suðvesturhorni landsins og hafa skipt máli fyrir afkomu útgerðaraðila þar.

Heildarafli strandveiðibáta var þann 7. júní s.l. kominn í 2.022 tonn og höfðu bátarnir farið í alls 3.751 sjóferðir eftir þeim afla. Meðalafli í róðri er því 539 kg. Fiskistofa hefur gefið út 625 leyfi en á upphafsári strandveiða voru þau 595. Helmingur heildaraflans hefur fiskast á svæði A, en þar er nú aðeins eftir að veiða 8% af leyfilegum afla mánaðarins.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta