Hoppa yfir valmynd
15. júní 2010 Utanríkisráðuneytið

Mannréttindafulltrúi SÞ til Íslands

Navanethem-Pillay
Navanethem-Pillay

navi-pÍ tilefni af komu  Navanethem (Navi) Pillay, mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna til Íslands, stendur utanríkisráðuneytið, í samvinnu við Mannréttindaskrifstofu Íslands og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, fyrir opnum fundi um eflingu og verndun mannréttinda 16. júní nk.

Á fundinum mun Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra flytja ávarp og Navanethem Pillay fjalla um hlutverk Sameinuðu þjóðanna við að efla og vernda mannréttindi. Fundarstjóri verður Þóra Arnórsdóttir, fréttamaður. Fundurinn, sem fram fer á ensku,  verður haldinn í Þjóðmenningarhúsinu og hefst 16:00. Hann er öllum opinn.

Navanethem Pillay hefur gegnt stöðu mannréttindafulltrúa SÞ í rétt tvö ár. Hún er frá Suður-Afríku, lögfræðingur að mennt. Á dögum aðskilnaðarstefnunnar tók Pillay að sér að verja baráttumenn gegn aðskilnaðarstefnunni og félaga í verkalýðsfélögum og þekkir því viðfangsefni sín af eigin raun. Hún hefur verið öflugur málsvari kvenréttinda og einn af stofnendum hinna alþjóðlegu félagasamtaka “Equality Now”, sem berjast fyrir réttindum kvenna. Þá hefur Pillay starfað með fjölda félagasamtaka sem vinna m.a. að málefnum barna, fanga, fórnarlamba pyntinga og heimilisofbeldis, sem og margskonar efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum.

Pillay hefur verið dómari við tvo af helstu stríðsglæpadómstólum heims. Hún var dómari í Alþjóðastríðsglæpadómstólnum vegna Rúanda í 8 ár og dómari í Alþjóðasakamáladómstólnum í Haag í 5 ár.

Navanethem Pillay er fimmti mannréttindafulltrúi SÞ frá því að embættið var stofnað 1993 en ríflega 1.000 starfsmenn í 50 löndum starfa hjá embættinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta