Frumvarp um siðareglur samþykkt samhljóða á Alþingi
Frumvarp forsætisráðherra um siðareglur var samþykkt samhljóða sem lög frá Alþingi í nótt. Frumvarpið gerir ráð fyrir að settar verði almennar siðareglur fyrir alla ríkisstarfsmenn en jafnframt muni forsætisráðherra staðfesta sértækari siðareglur fyrir ráðherra annars vegar og starfsmenn Stjórnarráðs Íslands hins vegar. Áhersla er lögð á að reglurnar verði settar í samráði við þá sem fara eiga eftir þeim og þær verði innleiddar með markvissum hætti, m.a. með námskeiðum. Þá verður hægt að bera upp kvörtun við umboðsmann Alþingis vegna meintra brota á siðareglum. Loks verður nefnd á vegum forsætisráðherra falið að veita ráð um setningu siðareglna hjá ráðuneytum og stofnunum, fylgjast með innleiðingu þeirra, koma með tillögur um úrbætur þar sem álit umboðsmanns Alþingis eða skýrslur Ríkisendurskoðunar benda til að pottur sé brotinn og vera almennt á varðbergi gagnvart hættu á hagsmunaárekstrum og spillingu hjá ríkinu.