Frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur samþykkt sem lög
Frumvarp forsætisráðherra um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna var samþykkt samhljóða sem lög frá Alþingi í nótt. Í lögunum er kveðið á um framkvæmd og tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu hvort sem um er að ræða þjóðaratkvæðagreiðslur sem skylt er að halda samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar eða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur sem Alþingi ályktar að efnt verði til. Lög um þjóðaratkvæðagreiðslur hafa ekki verið sett fyrr hér á landi þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir slíkri atkvæðagreiðslu í nokkrum tilvikum í stjórnarskrá lýðveldisins, nr. 33/1944.
Helstu atriði laganna er varða kosningaframkvæmd eru eftirfarandi:
- Framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu tekur, eftir því sem við á, mið af því kosningakerfi sem þegar er til staðar í landinu.
- Talning atkvæða fer fram á einum stað og skulu úrslit birt einu lagi fyrir landið allt.
- Sömu reglur um atkvæðisrétt gilda og í forsetakosningum og þar með Alþingiskosningum.
- Meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum án tillits til kosningaþátttöku eða hlutfalls atkvæða af fjölda atkvæðisbærra manna.
- Spurning í þjóðaratkvæðagreiðslu skal jafnan vera skýr og óskilyrt þannig að hægt sé að svara með ,,já” eða ,,nei.” Alþingi ákveður spurninguna, en leitar umsagnar Landskjörstjórnar um efnið.
- Spurninguna skal kynna kjósendum a.m.k. mánuði áður en atkvæðagreiðsla fer fram.
- Alþingi standi jafnan fyrir víðtækri kynningu á því málefni sem borið er undir þjóðaratkvæði.
- Ekki líði meira en eitt ár frá því að Alþingi ákveður að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu þar til atkvæðagreiðslan fer fram.
Lögin skapa almenna umgjörð um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Slíkar reglur eru mikilvægar enda til þess fallnar að tryggja gagnsæi og draga úr tortryggni á að málefnið sem slíkt, hafi bein áhrif á hvernig reglur eru settar um atkvæðagreiðsluna. Ávallt er hætta á að slík umræða geti spillt málefnalegri umræðu um það álitaefni sem til stendur að bera upp til samþykktar eða synjunar í þjóðaratkvæðagreiðslu.