Mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingar á Stjórnarráði Íslands
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra mælti í dag fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands. Í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð til fækkun ráðuneyta úr 12 í 9 með sameiningu dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis í nýtt innanríkisráðuneyti, félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis í nýtt velferðarráðuneyti og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og iðnaðarráðuneytis í nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Þá er lagt til að heiti umhverfisráðuneytis verði umhverfis- og auðlindaráðuneyti og hlutverk þess innan Stjórnarráðsins eflt þannig að það fái aukið vægi í rannsóknum, stefnumörkun og áætlunum sem tengjast nýtingu náttúruauðlinda. Markmiðið með breytingunum er að endurskipuleggja ráðuneyti í því skyni að gera þjónustu hins opinbera við almenning og atvinnulíf eins góða og kostur er með þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru hverju sinni. Jafnframt verða ráðuneytin betur í stakk búin til að takast á við flókin stjórnsýsluverkefni og tryggja formfestu.
„Þá bjóða sameinuð ráðuneyti upp á meiri möguleika til sérhæfingar og meira bolmagn til nýsköpunar og þróunarstarfs eins og m.a. kemur fram í skýrslu starfshóps um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Með frumvarpi þessu er því einnig verið að bregðast við mikilvægum ábendingum rannsóknarnefndar Alþingis vegna bankahrunsins eins og heitið hefur verið,“ sagði forsætisráðherra í framsögu sinni.
Jóhanna sagði brýnt að vanda til verka og mikilvægt að hafa samráð við samtök og aðra þá sem hagsmuna hafi að gæta. „Fyrir liggur að skoðanir eru helst skiptar um atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið en meiri sátt virðist ríkja um aðrar sameiningar. Ýmis samtök sem málið varðar hafa ályktað gegn þessum áformum varðandi atvinnuvegaráðuneytið. Sérstök áhersla verður lögð á víðtækt samráð á þeim vettvangi, m.a. við hagsmunaaðila á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs, og framvindan metin í ljósi árangurs af því samráði.
Ríkisstjórnin telur mikilvægt að öflugt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti verði byggt upp í samstarfi við atvinnulífið og samtök starfsmanna á þeim vettvangi. Eitt mikilvægasta verkefnið framundan er að tryggja atvinnu og útrýma atvinnuleysi. Samþætt og heildstæð atvinnustefna fyrir Ísland skiptir þar meginmáli og er það mín trú að nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, þar sem horft er til allra atvinnugreina, marki nýtt upphaf í þeirra sókn.
Rætt hefur verið um stofnun atvinnuvegaráðuneytis í mörg ár og hafa flestir stjórnmálaflokkar, sem nú eiga fulltrúa á þingi, á undanförnum árum ályktað um nauðsyn þess að horfa á atvinnumál þjóðarinnar heildstætt í einu ráðuneyti. Ég hef því mikla trú á að hægt verði að ná breiðri sátt um þessa breytingu á næstu vikum og mánuðum.“
Þá tók ráðherra dæmi af umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu við frumvarp til lögreglulaga sem nú er til umfjöllunar í þinginu. Í henni kemur fram að stór hluti af hagræðingu og sparnaði sem náðst hefur á þessu og síðasta ári hjá embættinu liggi í því að embættin voru sameinuð í upphafi árs 2007. „Þetta dæmi sýnir að stærri og öflugri einingar eru sveigjanlegri þegar kemur að því að takast á við erfiðleika eins og þá sem nú er glímt við í ríkisrekstri. Í umræðu um sameiningar ráðuneyta þarf því að horfa til langs tíma og átta sig á þeim tækifærum sem felast í færri og öflugri ráðuneytum og síðan verkaskiptingu og samvinnu þeirra stofnana sem munu heyra undir þau,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi í dag.