Hoppa yfir valmynd
18. júní 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Unnið að gerð alþjóðlegs samnings um kvikasilfur

Í Stokkhólmi
Í Stokkhólmi

Fyrstu viðræðulotu alþjóðlegrar samninganefndar um aðgerðir til þess að draga úr magni kvikasilfurs í umhverfinu lauk í síðustu viku í Stokkhólmi. Um 360 fulltrúar frá 121 ríki tóku þátt í viðræðunum sem fara fram á vegum Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Auk þeirra sóttu 60 fulltrúar frjálsra félagasamtaka fundinn. Áformað er að viðræðunum ljúki árið 2013 með lagalega bindandi aþjóðlegum samningi um kvikasilfur.

Kveikjan að viðræðunum eru vandamál vegna kvikasilfurmengunar sem vart verður alls staðar á jörðinni og stafar af því að kvikasilfur flyst auðveldlega langar leiðir með loftstraumum. Alþjóðlegra aðgerða til að draga úr losun er þörf til þess að sporna við menguninni því aðgerðir innan einstakra ríkja hafa takmörkuð áhrif. Kanada er dæmi um þetta þar sem yfir 95% af kvikasilfri í umhverfinu á uppruna að rekja til annarra landa. Annað dæmi er Grænlendingar, sem mælast með einna hæsta magn kvikasilfurs í blóði á  heimsvísu.

Kvikasilfur er hættulegt heilsu manna og umhverfi og hefur þann eiginleika að safnast fyrir í lífríkinu, einkanlega í sjávarlífverum þar sem styrkur þess getur farið yfir heilsuverndarmörk. Börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir kvikasilfri og einnig þurfa konur á barneignaaldri að forðast neyslu á mat sem inniheldur mikið kvikasilfur vegna neikvæðra áhrifa sem það getur haft á þroska heila og taugakerfis fósturs í móðurkviði.

Kvikasilfur í mönnum er helst rakið til fiskneyslu. Hátt magn kvikasilfurs í ákveðnum fisktegundum og fiski frá menguðum svæðum gerir það að verkum að fólki er ráðið að takmarka neyslu þessara afurða. Dæmi um þetta er stórurriði úr Þingvallavatni. Þessi tengsl ýta undir að gera almenna fiskneyslu tortryggilega, sem er gagnstætt ráðleggingum heilsuverndaryfirvalda sem hvetja til aukinnar fiskneyslu vegna hollustu. Fyrir Íslendinga er það mikilvægt hagmunamál að samningaviðræðurnar leiði til árangursríkra aðgerða til þess að draga úr kvikasilfurmengun.

Brennsla jarðefnaeldsneytis, einkum kola, er uppspretta tæplega helmings af útstreymi kvikasilfurs í andrúmsloftið. Á eftir kolum kemur útstreymi vegna gullvinnslu í smáum skala en þessa starfsemi stunda 10 - 15 milljónir manna í 55 þróunarríkjum. Til þessara uppsprettna auk sementsframleiðslu og málmavinnslu má rekja um 85% af því kvikasilfri sem losað er út í andrúmsloftið.

Margir og ónýttir möguleikar eru á því að draga úr losun kvikasilfurs í heiminum og með nútímatækni mætti draga úr losun þess um helming fram til ársins 2020. Þetta er niðurstaða skýrslu sem Norræna ráðherranefndin og Umhverfisstofnun Danmerkur lét gera.

Meðfylgjandi er myndskeið frá samningafundinum í Stokkhólmi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta