Hoppa yfir valmynd
22. júní 2010 Dómsmálaráðuneytið

Norrænir dómsmálaráðherrar funduðu í Danmörku

Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra sat í dag, 22. júní 2010, fund dómsmálaráðherra Norðurlandanna sem haldinn var í Danmörku. Ræddu ráðherrarnir meðal annars fyrirbyggjandi aðgerðir gegn afbrotum barna og ungmenna, baráttuna gegn innbrotum á heimili og meðferð kynferðisbrotamála.

Ákveðið var m.a. að beina því til norrænna ríkislögreglustjóra að skoða þörfina og möguleika á aukinni samvinnu milli landanna við rannsókn og meðferð mála er varða innbrot á heimili og þjófnaði sem oft tengjast alþjóðlegri glæpastarfsemi. Var þeim falið að koma með tillögur til úrbóta. Þá var ákveðið að óska eftir því að hin norræna embættismannanefnd um lagasamvinnu skoði möguleika á aukinni skilvirkni í úrlausnum mála svo að dæmdir sakamenn geti afplánað refsingu í sínu heimalandi.

Auk Rögnu Árnadóttur sátu fundinn þær Ása Ólafsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, og Bryndís Helgadóttir, settur skrifstofustjóri lagaskrifstofu, fyrir Íslands hönd.

Næsti fundur norrænna dómsmálaráðherra verður haldinn í Finnlandi að ári.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta