Reglugerð um leyfilegt magn brennisteinsvetnis í andrúmslofti
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur sett reglugerð um leyfilegan styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti. Markmið reglugerðarinnar er að draga úr mengun brennisteinsvetnis frá jarðhitavirkjunum og mögulegum neikvæðum áhrifum hennar á heilsu fólks.
Eftir að nýting jarðhita var aukin á Hellisheiðarsvæðinu fyrir fáum árum hefur mælst mun meiri styrkur brennisteinsvetnis á höfuðborgarsvæðinu og í sveitarfélögum í nágrenni virkjunarinnar. Brennisteinsvetni getur haft áhrif á heilsu fólks, gróður og mannvirki. Einnig hefur mikið borist af kvörtunum frá almenningi vegna óþæginda sem fólk verður fyrir vegna sterkrar lyktar af brennisteinsvetni.
Vegna ríkra hagsmuna almennings hefur umhverfisráðherra lagt áherslu á að setja hámarksreglur um leyfilegan styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti. Hingað til hafa vinnuverndarmörk verið einu mörkin sem sett hafa verið um styrk brennisteinsvetnis hér á landi. Þau mörk hafa ekki þótt nothæf viðmið til að tryggja að almenningur verði ekki fyrir áhrifum af þessari mengun.
Í reglugerðinni eru heilsuverndarmörk brennisteinsvetnis sett við 50 míkrógrömm í rúmmetra að meðaltali fyrir 24 klukkustundir. Gefið er ákveðið aðlögunartímabil þannig að til að byrja með verður leyfilegt að fara fimm sinnum á ári yfir þessi mörk en frá og með 1.júlí 2014 verður óheimilt að fara yfir þessi mörk. Mörk Alþjóðlegu heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) eru 150 míkrógrömm í rúmmetra og eru þau sett með tilliti til mögulegra bráðaáhrifa á augu en ekki langtímaáhrifa á heilsu fólks. Umhverfisráðherra segir óvissu ríkja um heilsufarsáhrif af langvarandi innöndun brennisteinsvetnis og því hafi hún talið nauðsynlegt að setja mörkin þannig að almenningur fái notið vafans. Einnig eigi þessi mörk að koma í veg fyrir megna lyktarmengun.
Samkvæmt reglugerðinni eiga fyrirtæki sem reka jarðvarmavirkjanir að setja upp mælistöðvar og fylgjast betur með losun brennisteinsvetnis en hingað til hefur verið gert. Með því á að tryggja nægilegar og samræmdar mælingar á styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti og að þeim upplýsingum sé miðlað til almennings.
Umhverfisráðherra segir að reglugerðin sé aðeins fyrsta skrefið í að draga úr mengun frá jarðvarmavirkjunum. Í ráðuneytinu sé nú verið að meta hvort setja þurfi fyrirtækjum sérstök losunarmörk sem yrðu strangari en mörk um leyfilegan styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti.