Hoppa yfir valmynd
24. júní 2010 Matvælaráðuneytið

Nr. 41/2010 Ráðstöfun aflaheimilda frá byggðarlögum

 

Þann 16. júní sl. voru samþykkt lög um byggðakvóta og ráðstöfun aflaheimilda með breytingu á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Ákvæðið um ráðstöfun aflaheimilda er gert að umtalsefni hér.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur undanfarna mánuði fylgst með fjárhagsstöðu í sjávarútvegi og hefur í því skyni verið rætt við ýmsa starfsmenn í bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum til þess að upplýsa um hana. Meðal þess sem rætt hefur verið er hugsanleg tilfærsla aflaheimilda frá byggðarlögum af þessum sökum.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, lagði fram á Alþingi frumvarp um þetta efni í byrjun apríl. Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hefur síðan haft það til meðferðar. Eftir ítalega umfjöllun og góða vinnu gerði nefndin nokkrar breytingar á frumvarpinu, en það er nú orðið að lögum eins og áður sagði.

Við umsögn um frumvarpið í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd kom fram, að um 20% sjávarútvegsfyrirtækja eru nú þegar í miklum greiðsluvanda, sem líkur benda til valdi röskun á atvinnustarfsemi tengdri sjávarútvegi og tilflutningi aflaheimilda á milli byggðarlaga. Óbeinar afleiðingar slíkrar stöðu geta einnig orðið miklar og haft áhrif á aðra atvinnustarfsemi í sömu byggðarlögum, lífsgæði og búsetu fólks. Staða margra byggðarlaga og sveitarfélaga verður mjög erfið flytjist aflaheimildir brott vegna gjaldþrots, annars konar eignauppgjörs eða endurskipulagningar einstakra sjávarútvegsfyrirtækja.

Með þessari breytingu á lögum um stjórn fiskveiða er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra veitt tímabundin heimild til að binda meðferð aflaheimilda ákveðnum skilyrðum eða ákveðið að óheimilt sé að framselja eða ráðstafa með öðrum hætti aflaheimildum úr einstökum sveitarfélögum eða byggðarlögum þegar um er að ræða umtalsverðan hluta aflaheimilda í viðkomandi sveitarfélagi eða byggðarlagi, a.m.k. fimmtung eða meira, og ætla má að framsal eða önnur ráðstöfun þeirra út fyrir sveitarfélagið eða byggðarlagið hafi veruleg neikvæð áhrif í atvinnu- og byggðarlegu tilliti. Heimild ráðherra mun ávallt bundin af skráðum sem óskráðum reglum stjórnsýsluréttar. Skal ráðherra byggja ákvarðanatöku sína á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum að meðalhófi gættu.

1.      Þær heimildir sem ráðherra eru veittar með ákvæðinu gilda um öll tilvik þegar áformað er að framselja eða ráðstafa með öðrum hætti aflaheimildum úr byggðarlögum eða sveitarfélögum.

2.      Tilkynningarskylda um áformað framsal eða aðra ráðstöfun aflaheimilda er lögð á handhafa aflahlutdeilda (aflaheimilda).    

3.      Tilkynna skal áform um framsal eða ráðstöfun aflaheimilda til Fiskistofu sem skal  þegar í stað tilkynna ráðherra ef framsal eða önnur ráðstöfun aflaheimilda fer yfir fimmtung eða meira frá byggðarlagi.    

4.      Frestur ráðherra til að taka ákvörðun um setningu skilyrða fyrir framsali eða hvort hann banni framsal eða aðra ráðstöfun er tveir mánuðir. Þannig er ráðherra veitt svigrúm til að leita vægari úrræða og lausna á þeim vandamálum sem upp kunna að koma vegna áforma um framsal eða aðra ráðstöfun aflaheimilda, í samstarfi við sveitarfélög, hagsmunaaðila og fjármálafyrirtæki.

Að mati Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er um að ræða neyðarréttarúrræði sem ætlað er að hefta neikvæð áhrif tilflutninga á aflaheimildum á atvinnustarfsemi sjávarbyggða og koma í veg fyrir byggðaröskun. Um bráðabirgðaákvæði er að ræða og ná réttaráhrif þess því einungis til þess sem eftir lifir núverandi fiskveiðiárs auk fiskveiðiáranna 2010/2011 og 2011/2012. Það er einlæg von sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að ekki komi til þess að það þurfi að beita þessum heimildum, en eftir sem áður er hér um að ræða mjög stórt skref í þá átt að taka tillit til sjálfsagðra hagsmuna sjávarbyggðanna við stjórn fiskveiða.

Lög nr. 116/2006

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta