Hoppa yfir valmynd
24. júní 2010 Matvælaráðuneytið

Nr. 43/2010 Vinnsla á makríl til manneldis á vertíðinni 2010

 

Makríll hefur gengið að Íslandsströndum svo langt sem ritaðar heimildir segja. Elsta ritaða heimild um makríl á Íslandi er úr riti Jóns lærða Guðmundssonar “Ein stutt undirrétting um Íslands aðskiljanlegar náttúrur” frá árinu 1637. Þar segir m.a.: “Makríll hljóp á land eitt vor á Hornströndum, svo að fyllti fjörur og víkur, og hlaut sjór og vargur öllu að foreyða, því enginn þekkti og héldu óæta eftir vana.”

Í “Fiskarnir” eftir Bjarna Sæmundsson sem kom út árið 1926 segir frá því að árið 1895 hafi orðið vart við makríl í Hafnarfirði, Vopnafirði og Seyðisfirði. “Síðan hafi hann fengist flest árin á ýmsum stöðum og við allar strendur landsins.”

Á miðju ári 1997 hlýnaði hafið við Ísland með stórauknu streymi Atlantssjávar norður fyrir land og ásamt hinni almennu hlýnun. Sumarið 2005 bárust Hafrannsóknastofnuninni fjölmargar tilkynningar um makríl víða við landið og þá fór að bera á makríl í aflanum á síldveiðum fyrir Austurlandi. Makrílveiðar Íslendinga hófust síðan fyrir alvöru 2008 en þá voru veidd um 112 þúsund tonn en nær allt fór til bræðslu. Á árinu 2009 var veiðin svipuð, en þá var vinnsla til manneldis farin að taka stórstígum framförum og náðist að vinna um 20% af heildaraflanum. Vonir standa til að meirihluti aflans í ár verði unninn til manneldis.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, hefur frá því að hann tók við embætti lagt mikla áherslu á að auka vinnslu á makríl til manneldis og ekki verður annað sagt en útgerðirnar hafi brugðist vel við, enda tvímælalaust í þeirra þágu. Því liggur fyrir að það er sameiginlegt markmið stjórnvalda og útgerða að skapa sem mest verðmæti úr aflanum. Til að staðfesta þennan sameiginlega vilja undirrituðu Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ minnisblað um manneldisvinnslu á makrílvertíðinni 2010, sem er hér meðfylgjandi. Það er því engin ástæða fyrir ráðherra, sem er vel, að beita nýfenginni heimild í lögum um stjórn fiskveiða þar sem honum er heimlað að setja ákvæði um vinnsluskyldu í reglugerð.

Í minnisblaðinu kemur fram að með þeirri samvinnu sem þar er lýst og fyrirkomulagi hennar sé leitast við að ná markmiðum stjórnvalda og útgerða um manneldisvinnslu á makríl og að tryggt verði áreiðanlegt og skilvirkt upplýsingaflæði um stöðu mála á viku fresti. Munu aðilar þannig meta stöðuna á hverjum tíma og bregðast við svo tryggt sé að hámarksverðmætum sé náð. 

Minnisblað um makrílvinnslu

on-Bjarna-og-Fridrik-J-undirrita-minnisblad-um-manneldisvinnslu-makrils-2010

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta