Hoppa yfir valmynd
24. júní 2010 Utanríkisráðuneytið

Ráðherrafundur EFTA: Fríverslunarsamningur við Úkraínu undirritaður

eftaRáðherrafundur EFTA-ríkjanna var haldinn í Reykjavík í dag. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, stýrði fundinum.

Á fundinum minntust ráðherrarnir þess að 50 ár eru liðin frá því að fríverslunarsamtökin voru sett á fót. Ráðherrarnir ræddu samskipti EFTA við Evrópusambandið. Jafnframt var fjallað um gerð fríverslunarsamninga á vegum EFTA-ríkjanna. Fríverslunarsamningur við Úkraínu voru undirritaðir. Þá fögnuðu ráðherrarnir því að að fríverslunarviðræðum við Perú er lokið.

Ráðherrarnir ræddu um gang fríverslunarviðræðna EFTA-ríkjanna við Hong Kong og Indland. Jafnframt var fjallað um undirbúning fyrir fríverslunarviðræður við Rússland, m.a.  í ljósi stofnunar tollabandalags Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstans fyrr á þessu ári. Ákveðið var á fundinum að hefja fríverslunarviðræður við Bosníu-Hersegóvínu og við Svartfjallaland.

Ráðherrarnir fögnuðu þeirri ákvörðun EFTA-ríkjanna og Víetnam að kanna  hagkvæmni þess að gera fríverslunarsamning Einnig var áréttaður vilji til að hefja fríverslunarviðræður við Indónesíu. Ráðherrarnir fögnuðu gerð samstarfsyfirlýsinga við Malasíu og Panama. Samþykkt var að skoða möguleika á því að styrkja viðskiptatengsl við Mið-Ameríkuríki. Jafnframt ákváðu ráðherrarnir að skoða hvernig styrkja mætti framkvæmd fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna við Palestínu.

Utanríkisráðherra gerði grein fyrir stöðu aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu.

Ráðherrarnir ræddu almennt um EES-samstarfið, þá sérstaklega með hliðsjón af efnahagsástandinu og undirstrikuðu m.a. mikilvægi þess að gripið verði til samræmdra aðgerða í Evrópu. Þeir ræddu gildistöku Lissabon-sáttmálans og mikilvægi þess að tryggja áframhaldandi góða framkvæmd EES-samningsins þrátt fyrir breytingar á stofnanauppbyggingu innan ESB. Til snarpra orðaskipta kom á milli Össurar Skarphéðinssonar og Per Sanderud, forseta Eftirlitsstofnunar EFTA, um Icesave. Einnig var rædd efnahagsáætlun ESB, Evrópa 2020 sem og ný skýrsla um hvernig megi styrkja og bæta innri markaðinn.

Ráðherrarnir fögnuðu því að samkomulag hefur náðst um fjárframlög EES-EFTA-ríkjanna í gegnum Þróunarsjóð EFTA til að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði á EES-svæðinu fyrir tímabilið 2009 – 2014.  Ráðherrarnir fögnuðu því jafnframt að komið hefur verið á fót samráðsvettvangi fulltrúa í sveita- og héraðastjórnum EES-EFTA-ríkjanna.

Ráðherrarnir áttu einnig fundi með þingmanna- og ráðgjafarnefndum EFTA þar sem fram fóru skoðanaskipti um EFTA-samstarfið og EES-samninginn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta